Gervigreind nýtt við vinnslu sparnaðarráða

Kristrún Frostadóttir segir að um langtímaverkefni sé að ræða.
Kristrún Frostadóttir segir að um langtímaverkefni sé að ræða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórnin mun nýta sér hjálp gervigreindar við vinnslu allra þeirra umsagna sem berast í samráðsgátt um hagræðingu í ríkisrekstri.

Þetta segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi.

„Við ætlum að byrja á því að nýta okkur gervigreind og tækni til þess að taka saman ákveðnar niðurstöður og svo verður farið nánar út í þær umsagnir sem við teljum að muni nýtast okkur best. Við leggjum mikið upp úr því að niðurstöður samráðsins verði birtar tiltölulega fljótt,“ segir hún.

Umsjónaraðilar geta séð nafnlausar umsagnir

Hún segir að starfsmenn í fjármálaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu verði með „eignarhald á þessu hagræðingarverkefni“ út kjörtímabilið.

„Þetta verður langtímaverkefni,“ segir hún.

Um 2.400 umsagnir hafa borist inn á samráðsgátt og hefur vakið athygli að meirihluti þeirra eru leynilegar og ekki birtar undir nafni.

„Í þessu tilfelli var sú leið farin að þátttakendur geta valið að umsögn og nafn sendanda birtist ekki. Var það gert til að stuðla að betri þátttöku í samráðinu. Áður en umsögn er send í samráðsgátt er sendanda gerð grein fyrir því að upplýsingalög gildi um umsögnina,“ segir í skriflegu svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.

Þeir sem fara yfir umsagnirnar geta séð nöfn þeirra sem sendu þær inn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert