Sýnir hvað stríð er hræðilegt, ömurlegt og grimmt

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra á blaðamannafundi í Úkraínu í dag.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra á blaðamannafundi í Úkraínu í dag. AFP

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir um 30% lands Úkraínu vera þakið jarðsprengjum.

Ísland veitir landinu 600 milljónir íslenskra króna fyrir sprengjuleit og að auki verða veittar 400 milljónir íslenskra króna til að styðja við úkraínskan varnariðnað.

Fjárveitingarnar voru samþykktar undir lok síðasta árs á Alþingi þvert á alla flokka og voru þar áður teknar fyrir á Norðurlandaráðsþinginu í október þar sem Volodimír Selenskí Úkraínuforseti var heiðursgestur.

Áttu samtöl um ýmis málefni

Þorgerður er stödd í Úkraínu þar sem hún hitti utanríkisráðherra og forsætisráðherra landsins í dag en þeir þökkuðu Íslandi fyrir stuðning þess við landið.

„Ég er búinn að hitta utanríkisráðherrann Andrí Sibíha og átti alveg ótrúlega góð samtöl við hann um ýmis málefni, meðal annars um hvernig hægt er að byggja upp orkuinnviði landsins sem Rússar hafa markvisst verið að sprengja upp og það er í raun ekkert annað en bein árás á borgaralega innviði sem við náttúrlega fordæmum harkalega,“ segir Þorgerður Katrín í samtali við mbl.is.

Nefnir hún að í samtölum við utanríkisráðherrann hafi einnig verið rætt um hvað væri hægt að gera svo að atvinnulífið í Úkraínu yrði sem mest sjálfbært og að utanríkisráðherrann hafi sýnt henni hvað Úkraínumenn séu sjálfir að reyna að byggja upp.

„Ég fór í heimsókn í drónaverksmiðju sem framleiddi einu sinni einhverja nokkra tugi eða hundruð dróna en núna er verið að framleiða einhverjar þúsundir í hverjum mánuði. Þetta hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir Úkraínumenn í stríðinu öllu.“

Utanríkisráðherrar Íslands og Úkraínu, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Andrí Si­bíha.
Utanríkisráðherrar Íslands og Úkraínu, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Andrí Si­bíha. AFP

Sýnir hvað stríð er grimmt

Þá ræddi Þorgerður einnig við forsætisráðherra landsins, Denis Smjhal, um framlag Íslands til sprengjuleitar og eyðingar í landinu, en þau framlög nema um 600 milljónum króna og er Ísland leiðandi í þeim framlögum ásamt Litháen.

„Það er um 30% landsins sem er þakið jarðsprengjum, alveg hrikalegt ástand að mínu mati, sem sýnir hvað stríð er hræðilegt, ömurlegt og grimmt,“ segir Þorgerður og heldur áfram:

„Síðan erum við líka, í gegnum svokallaða danska módelið, að gera það sem að Úkraínumenn hafa sérstaklega farið fram á sjálfir – að þeir verði studdir með kaupum á varnartengdum innviðum sem þeir framleiða sjálfir og við erum að gera það í samvinnu við þau lönd sem fara í gegnum danska módelið.“

Segir Þorgerður bæði utanríkisráðherrann og forsætisráðherrann hafa þakkað fyrir það samstarf og samstöðu sem Norðurlandaþjóðirnar með Eystrasaltsþjóðunum hafi sýnt Úkraínu, „í gegnum þetta erfiða og grimma innrásarstríð Rússa“.

Ýmis málefni voru rædd í dag.
Ýmis málefni voru rædd í dag. AFP

„Við erum að fylgja því eftir“

Um kaupin á varnartengdum innviðum, sem nema um 400 milljónum frá íslenska ríkinu, segir Þorgerður að framlögin til Úkraínu hafi verið samþykkt í fjáraukalögum sem tekin voru fyrir á síðasta þingi.

„Þvert á alla flokka þá náðist samstaða um annars vegar ályktun sem varðar Úkraínu og það hvernig við stöndum að stuðningi við Úkraínu og hins vegar var samstaða í fjáraukalögum um Úkraínu og við erum að fylgja því eftir,“ segir hún.

„Það var um einn og hálfur milljarður minnir mig sem var samþykktur í fjáraukanum og hluti af því er að fara í sprengjuleitina og hluti af því er að fara inn í þetta danska módel sem meðal annars felur í sér það að koma til móts við það sem Úkraínumenn eru að biðja um – að það séu keyptir af þeim varnartengdir hlutir til þess að meðal annars byggja upp og verja sig. Annars vegar byggja upp atvinnulíf og hins vegar verja sig sjálfir.“

Framlag Íslands til sprengjuleitar og eyðingar nemur um 600 milljónum …
Framlag Íslands til sprengjuleitar og eyðingar nemur um 600 milljónum króna. AFP

Ríkisstjórnin að senda út skýra tóna

Um er að ræða fyrstu heimsókn Þorgerðar til Úkraínu eftir innrás Rússlands og segist hún finna fyrir veruleika grimmdar og miskunnarleysis í landinu en á sama tíma hlýju og kærleika.

„En mér fannst ég finna það einmitt, gagnvart okkur Íslendingum, að þeir væru þakklátir fyrir það hvernig við höfum nýtt okkar rödd og nýtt okkar aðstöðu og þeir voru ánægðir með að ný ríkisstjórn á Íslandi sé að senda út mjög skýra tóna í þá veru að Ísland standi með Úkraínu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert