Þær umsagnir sem borist hafa í skipulagsgátt vegna áforma Zephyr Iceland um að reisa vindorkugarð með 20-30 vindmyllum í landi Hæls og Steindórsstaða í Flókadal í Borgarbyggð eru allar neikvæðar í garð verkefnisins en matsáætlun var lögð fram til kynningar 20. desember. Frestur til umsagnar er til 27. janúar.
Guðveig Lind Eyglóardóttir, forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar, segir eðlilegt að þeir sem búa í nágrenni við þau svæði sem mögulega koma til greina séu ekki hoppandi kátir með áformin. „Ég veit ekki á hvaða forsendum fólk ætti að veita jákvæðar umsagnir um að fá vindmyllur í bakgarðinn hjá sér. Það er alveg óháð því hvaða skoðun ég hef á vindorku,“ segir hún.
Guðveig segir sveitarstjórn ekki hafa fengið neina formlega umsókn um vindmyllur og ekki rætt áform Zephyr Iceland. „Í fyrsta lagi tökum við ekki fyrir fabúleringar um einhver svæði nema umsóknir komi á borð til okkar en meginlínan er sú að þeir möguleikar verða skoðaðir sem eru innan ramma og mögulega gætu samræmst aðalskipulagsáformum sveitarfélagsins.“
Segir Guðveig um þá umræðu sem átt hefur sér stað hjá Borgarbyggð sem öðrum sveitarfélögum að lagaramminn þurfi að liggja fyrir áður en sveitarfélög fari að taka einhver skref í þessa átt. Enn sjái ekki til lands hvað það varðar.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag