„Þróunin er þannig að það má alveg búast við því að það geti farið að draga til tíðinda á Sundhnúkagígaröðinni um eða eftir næstu mánaðamót.“
Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Landris undir Svartsengi heldur áfram með svipuðum hraða. Í síðasta eldgosi sem lauk 9. desember er metið að um 12-15 milljónir rúmmetra af kviku hafi farið undan Svartsengi.
Þegar því rúmmáli er aftur náð eru taldar auknar líkur á að kvikuhlaup eða eldgos geti átt sér stað.
Samkvæmt líkanreikningum er áætlað að rúmmál kviku undir Svartsengi nái neðri mörkum í lok janúar.
„Spurningin er hvort gjósi þá en þegar líður að mánaðamótum förum við á hærra vöktunarstig og gerum ráð fyrir gosi fyrir gosi hvenær sem er, en við gætum alveg þurft að bíða eitthvað,“ segir Benedikt en áfram er jarðskjálftavirkni við Svartsengi og Sundhnúksgígaröðina mjög lítil.
Sex eldgos urðu á Sundhnúkagígaröðinni á síðasta ári.