Einn var fluttur á sjúkrahús vegna gruns um reykeitrun eftir að eldur kom upp í hjólhýsi við Sævarhöfða í Reykjavík á fimmta tímanum í nótt.
Varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins segir við mbl.is að tvö hjólhýsi hafi brunnið og tvö önnur hafi skemmst vegna hita en ekki sé vitað um eldsupptök. Á þessu svæði við Sævarhöfða er hjólhýsabyggð.
Rétt fyrir klukkan sex í morgun barst slökkviliðinu tilkynning um reyk í einbýlishúsi á Álftanesi en þar hafði myndast hiti og reykur í poka sem í voru geymdar notaðar rafhlöður.
Reykskynjari vakti húsráðendur sem kölluðu til slökkvilið. Tveir dælubílar fóru á staðinn en segja má að reykskynjarinn hafi komið í veg fyrir mikið tjón.