Flame fór halloka fyrir héraðsdómi

Héraðsdómur Reykjaness gerði veitingastaðinn Flame hornrekan með málatilbúnað sinn.
Héraðsdómur Reykjaness gerði veitingastaðinn Flame hornrekan með málatilbúnað sinn. mbl.is/Ófeigur

Starfs­fólk veit­ingastaðar­ins Flame var í full­um rétti til að ganga úr störf­um sín­um vegna vanefnda vinnu­veit­and­ans gagn­vart því. Þetta dæmi Héraðsdóm­ur Reykja­ness í máli stétt­ar­fé­lags­ins MATVÍS gegn Flame á mánu­dag­inn og féllst á all­ar kröf­ur fé­lags­ins auk út­reikn­inga kjara­deild­ar Fag­fé­lag­anna fyr­ir hönd þess.

Frá þessu er greint á heimasíðu MATVÍS þar sem fram kem­ur að starfs­fólkið, sem mál­sókn­in tók til, hafi átt millj­ón­ir króna inni hjá Flame.

„Málið á ræt­ur að rekja til þess að sum­arið 2022 fékk MATVÍS upp­lýs­ing­ar um að starfs­menn veit­ingastaðar­ins Flame hefðu ekki fengið launa­greiðslur sem þeir áttu rétt á sam­kvæmt kjara­samn­ing­um og lög­um. Í heim­sókn vinnu­eft­ir­lits MATVÍS var upp­lýst um um­fangs­mik­il brot Flame gegn starfs­fólki. Starfs­fólk veit­ingastaðar­ins vann mjög mikið en greiðslur voru í engu sam­ræmi við vinn­una. Ljóst er að vinnustaðaheim­sókn MATVÍS gegndi lyk­il­hlut­verki við að upp­lýsa þau al­var­legu brot sem málið snýst um,“ seg­ir í til­kynn­ingu MATVÍS.

Taldi starfs­fólkið eiga enn meira inni

For­saga máls­ins hafi verið sú að haustið 2022 greiddi Flame þrem­ur starfs­mönn­um alls 10,5 millj­ón­ir króna fyr­ir til­stilli MATVÍS, vegna launa og annarra rétt­inda sem launþeg­arn­ir hefðu verið hlunn­farn­ir um.

„MATVÍS taldi þó að starfs­fólkið ætti enn meira inni og studdi því starfs­fólkið í dóms­máli gegn veit­ingastaðnum. Héraðsdóm­ur féllst á mála­til­búnað MATVÍS í heild sinni og samþykkti all­ar kröf­ur starfs­manna á hend­ur Flame.“

Sam­kvæmt niður­stöðu héraðsdóms beri Flame að greiða starfs­fólk­inu sam­tals þrjár og hálfa millj­ón króna, auk drátt­ar­vaxta, til viðbót­ar við það sem Flame hafi áður greitt til leiðrétt­ing­ar á van­goldn­um laun­um. MATVÍS og kjara­deild Fag­fé­lag­anna hafi þannig stuðlað að því að þrír starfs­menn hafi fengið greidd­ar um 14 millj­ón­ir króna vegna van­greiddra launa og annarra rétt­inda.

Veru­lega vegið að rétt­ind­um

Seg­ir í til­kynn­ing­unni að héraðsdóm­ur hafi hafnað öll­um mála­til­búnaði Flame en full­trú­ar fyr­ir­tæk­is­ins hafi haldið því fram að starfs­mönn­un­um hafi verið óheim­ilt að láta af störf­um þrátt fyr­ir um­fangs­mik­il brot vinnu­veit­and­ans í þeirra garð.

„Á tím­um þar sem veru­lega er vegið að rétt­ind­um hjá starfs­fólki veit­ingastaða er mik­il­vægt að starfs­fólk geti leitað til stétt­ar­fé­laga sem gæt­ir rétt­inda þeirra. Þá er sér­stak­lega mik­il­vægt að starfs­fólk geti treyst því að dóm­stól­ar standi vörð um grund­vall­ar­regl­ur á vinnu­markaði,“ seg­ir svo og að lok­um að MATVÍS fagni niður­stöðu héraðsdóms um rétt­inda­mál starfs­fólks­ins.

Til­kynn­ing MATVÍS

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert