Fullnægi ekki skilyrðum stjórnmálaflokks

Björn Bjarnason skýtur föstum skotum að Flokki fólksins.
Björn Bjarnason skýtur föstum skotum að Flokki fólksins. Samsett mynd/mbl.is/Karítas/María

Flokkur fólksins uppfyllir ekki þau skilyrði sem almennt eru gerð til lýðræðislegra stjórnmálaflokka, að mati fyrrverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins. Í því ljósi gerist þörf á því að ræða hvort að réttlætanlegt sé að fjármagna slíka flokk með skattfé.

Þetta segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, í viðtali í nýjasta hlaðvarpsþætti Þjóðmála.

„Óvissuþátturinn í þessari stjórn er Flokkur fólksins,“ segir Björn þegar talið berst að ríkisstjórninni.

„Fyrir hvað stendur flokkur fólksins? Það veit það enginn, það eru aldrei haldnir neinir fundir þar, það eru engar flokksályktanir, það eru engin kjördæmisráð, það er ekki neitt. Inga Sæland ræður þessu.“

„Ég vil að við tölum um þetta

Gísli Freyr Valdórsson, umsjónarmaður Þjóðmála, nefnir á móti að svo virðist sem það skipti í raun ekki máli, flokkurinn hafi aukið fylgi sitt í nýafstöðnum kosningum og sé nú kominn í ríkisstjórn.

„Þótt það skipti Þorgerði Katrínu og Kristrúnu engu máli, af hverju eiga aðrir að segja að þetta skipti engu máli? Auðvitað skiptir þetta máli ef hér starfa einhver öfl sem kalla sig stjórnmálaflokka, en þegar nánar er að gáð kemur í ljós að þeir fullnægja ekki þeim skilyrðum sem almennt eru gerð til stjórnmálaflokka, um lýðræðislega stjórnarhætti og eitthvað bakland,“ svarar Björn á móti.

Inga Sæland, leiðtogi Flokks fólksins, er félags- og hús­næðis­mála­ráðherra.
Inga Sæland, leiðtogi Flokks fólksins, er félags- og hús­næðis­mála­ráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann spyr í framhaldinu hvort að fylgi sé rétti gæðastimpillinn til að nota á stjórnmálaflokka. Hann bendir á að stefna flokksins sé óljós, enda hafi formaður flokksins lýst því yfir eftir kosningar að flokkurinn hafi í raun ekki gefið út nein kosningarloforð heldur viljayfirlýsingar og sé því ekki bundinn af neinu.

„Ég vil að við tölum um þetta. Ég vil að við förum í saumana á þessu,“ segir Björn og bendir á að stjórnmálaflokkar séu fjármagnaðir með skattfé.

Spyr hvort að ESB myndi viðurkenna flokkinn

„Hvað segja þeir sem eru alltaf að tala um útþenslu ríkisins? Eigum við að nota skattfé til að borga svona hópi fólks fé af því að hann sé stjórnmálaflokkur? Eigum við þá ekki að setja reglur um það að flokkur sem fái fé úr ríkissjóði verði að fullnægja lágmarkskröfum sem gerðar eru til þess að um lýðræðislegan flokk sé að ræða? Svo getum við rætt um það hvaða lágmarkskröfur þetta eru,“ segir Björn.

Hann bætir við að hægt sé að sjá upplýsingar um þær grundvallarkröfur sem gerðar séu til stjórnmálaflokka í gögnum hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE), enda hafi stofnunin tekist á við sambærilegar hreyfingar í öðrum löndum.

„Ætli Evrópusambandið myndi viðurkenna þennan flokk innan sinna raða, myndu þeir ekki gera einhverjar meiri kröfur heldur en við gerum?“ spyr Björn í framhaldinu og bætir því við að þetta sé nokkuð sem þurfi að ræða og sé ekki hægt að hunsa þó svo að aðrir oddvitar í ríkisstjórn hafi veitt formanni Flokks fólksins umboð sitt til að sitja í ríkisstjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert