Niðurstaða Rannsóknarnefndar samgönguslysa, þegar stór steypubíll ók á hinn átta ára Ibrahim Shah Uz-Zaman þegar hann var á leið af æfingu á Ásvöllum í lok október 2023, er sú að ökumaður hafi ekki veitt drengnum athygli þegar hann tók hægri beygju á gatnamótum í átt að vinnusvæði á Ásvöllum.
Þá segir að „sennilegt“ sé að ekkert stefnuljós hafi verið notað þegar beygt var inn á bílastæðið þar sem slysið varð og að drengurinn hafi verið sýnilegur í um 20 sekúndur í hliðarspegli áður en hann hvarf af sjónarsviði ökumanns í tvær til þrjár sekúndur.
Eins að í upphaflegri öryggisáætlun fyrir vinnusvæðið, þar sem ökumaður vörubílsins starfaði, hafi aðkoma vinnutækja og umferð óvarinna vegfarenda um syðri hluta Ásvalla, þar sem slysið varð, ekki verið nægjanlega afmörkuð né takmörkuð. Sú öryggisáætlun var unnin í samráði við Hafnafjarðarbæ.
Segir í skýrslunni að „fyrir mistök“ hafi vörubílnum verið „ekið inn Ásvelli að vinnusvæði við suðurenda götunnar en öll umferð vinnutækja til og frá þeim vinnusvæðum var um Ásvelli.“
Í skýrslunni er komið á framfæri athugasemd til ökumanna stærri ökutækja að huga sérstaklega vel að óvörðum vegfarendum þegar hægri beygja er tekin á gatnamótum.
Rannsóknarnefndin sviðsetti slysið og tók m.a. tillit til afstöðu spegla og ástands ökutækisins.
Í atvikalýsingu er sagt frá því að Ibrahim hafi verið á ferð á hjóli sínu eftir göngustíg á leið til suðurs vestan við Ásvelli. Beygði hann til hægri af göngustígnum inn á innkeyrslu að bílastæði. Á sama tíma var vörubílnum ekið af stað til suðurs eftir Ásvöllum, eftir að hafa bakkað nokkurn spöl, var beygt til hægri inn á innkeyrsluna að bílastæðinu þar sem Ibrahim var.
Segir að hann hafi látist samstundis við áreksturinn.
Segir að ökumaðurinn hafi ekki verið á mikilli ferð. Gerð var áfengis- og lyfjaprófun á honum og reyndist hún neikvæð.
Kemur fram að bremsuaðstoð hafi verið óvirk en ekki er talið að hún hafi verið hönnuð til að taka tillit til gangandi vegfarenda og því ólíklegt að bilunin hafi haft áhrif á aðstæður sem leiddu til slyssins. Þá var ekki gerð athugasemd við staðsetningu spegla og þóttu þeir veita gott útsýni meðfram hægri hlið vörubílsins.
„Útsýn úr hliðar- og framrúðu var eðlileg og virtist í samræmi við hönnun bifreiðarinnar. Ekkert var á rúðum eða fyrir þeim sem truflaði útsýn. Með hliðsjón af upptökum af slysinu er áætlað að sennilega hafi hjólandi vegfarandinn verið sýnilegur í hliðarspeglum í rúmar tuttugu sekúndur fyrir slysið en hafi horfið úr sjónsviði ökumanns og allra spegla tveimur til þremur sekúndum fyrir slysið,“ segir í skýrslu.
Þá segir að ekki hafi verið hægt að greina nákvæmlega af upptökum hvort stefnuljós hafi verið notað þegar slysið varð en sagt sennilegt að stefnuljós hafi ekki verið notað.
Í skýrslunni er einnig vikið að öryggisráðstöfunum. Segir að áætlun um öryggisráðstafanir á vinnustaðnum hafi verið unnin af verktaka þegar framkvæmdir hófust og eftirlitsmaður skipaður. Afmarkanir og ráðstafanir gagnvart óvörðum vegfarendum hafi verið unnar í samráði við Hafnafjarðarbæ.
Þá segir að ekki hafi verið hugað nægjanlega vel af þessum afmörkunum og að í kjölfar slyssins hafi verið settar upp viðbótargirðingar og vinnusvæðin sameinuð og stækkuð með aðgangshliði og nýr stígur malbikaður vestan bílastæðisins, fjarri vinnusvæðinu.