Missti heimilið í þriðja sinn í eldsvoða

Hjólhýsi Geirdísar eyðilagðist vegna hita- og reykskemmda í eldsvoðanum í …
Hjólhýsi Geirdísar eyðilagðist vegna hita- og reykskemmda í eldsvoðanum í nótt. Samsett mynd/Aðsend/Eyþór

Íbúi í hjól­hýsi á Sæv­ar­höfða sem eyðilagðist í brun­an­um í nótt seg­ir elds­voðann sýna að aðstæður þar séu ekki boðleg­ar. Íbúar hafi verið send­ir þangað vegna for­dóma borg­ar­inn­ar.

Geir­dís Hanna Kristjáns­dótt­ir var sof­andi í hjól­hýsi sínu í nótt er ná­granni henn­ar knúði á dyr til að biðja hana um að lána sér slökkvi­tæki þar sem kviknað hafði í svefn­poka hans inni í hans hýsi. Til­raun­ir hans til að slökkva eld­inn báru ekki ár­ang­ur og hringdi Geir­dís að lok­um á slökkviliðið.

„Þetta gerðist al­veg fá­rán­lega hratt,“ seg­ir Geir­dís.

Missti föður sinn í elds­voða

Aðspurð seg­ir hún at­b­urðina hafa tekið mikið á, sér í lagi vegna þess að þetta sé hvorki í fyrsta eða annað sinn sem hún missi heim­ili sitt í elds­voða.

Geir­dís missti föður sinn í elds­voða á Sigluf­irði sum­arið 1978 en hún missti einnig heim­ili sitt á Ak­ur­eyri vet­ur­inn 1990 er kviknaði í hjá ná­granna henn­ar.

„Ég hef tvisvar sinn­um áður misst allt mitt í bruna.“

Hún kveðst þó heppn­ari en sum­ir aðrir þar sem eld­tung­urn­ar náðu ekki til hýs­is­ins henn­ar. Tveir ná­grann­ar henn­ar hafi ekki verið svo heppn­ir og misst allt sitt er hýsi þeirra brunnu til kaldra kola.

Hit­inn hafi aft­ur á móti verið svo mik­ill að hann bræddi hluta hýs­is henn­ar og reyk­skemmd­ir þó nokkr­ar.

Álit­in fimmta flokks fólk

Á bil­inu 15-20 manns búa í hjól­hýsa­byggðinni á iðnaðarsvæðinu við Sæv­ar­höfða og Geir­dís seg­ir þar búa sam­held­inn kjarna sem hafa fylgst að frá því að þau bjuggu á tjaldsvæðinu í Laug­ar­daln­um.

Þeim hafi var gert að flytja af tjaldsvæðinu árið 2023 til að víkja fyr­ir rekstri sem leig­ir út tjaldsvæðið til er­lendra ferðamanna. Geir­dís seg­ir nóg af plássi á tjaldsvæðinu og ljóst að ástæða þess að hjól­hýsa­byggðin þurfti að færa sig um set byggi á for­dóm­um.

„Það er litið á okk­ur sem fimmta flokks fólk og litið niður á þetta bú­setu­form og við fáum að finna fyr­ir því alls staðar frá, sein­ast frá borg­ar­stjóra.“

Fyr­ir­komu­lagið á Sæv­ar­höfða átti að vera tíma­bundið en borg­ar­stjóri Reykja­vík­ur, Ein­ar Þor­steins­son, gaf síðar út að hann hygðist ekki finna nýj­an stað fyr­ir byggðina og benti íbú­um á að flytja sig frek­ar á tjaldsvæði utan höfuðborg­ar­svæðis­ins.

Hafði varað við ráðstöf­un­inni

Geir­dís var ein þeirra sem vöruðu við því að ráðstöf­un­in á Sæv­ar­höfða ógnaði lífi og heilsu íbúa líkt og sann­reynd­ist í gær.

„Við erum búin að vera að halda þetta fjög­urra metra bil á milli tækja eins og á að vera sam­kvæmt eld­varn­ar­regl­um en eins og sést mjög klár­lega í þessu til­felli þá eru fjór­ir metr­ar bara langt frá því að vera nóg.“

Hún von­ast til þess að borg­ar­yf­ir­völd líti stöðu hjól­hýsa­byggðar­inn­ar al­var­legri aug­um í ljósi at­b­urða gær­dags­ins.

Stuðning­ur­inn ómet­an­leg­ur

Spurð hvað taki við í fram­hald­inu seg­ist Geir­dís nú bíða eft­ir svör­um frá trygg­inga­fé­lag­inu sem hafi tekið vel á móti henni í dag.

Eins og er gisti hún hjá syst­ur sinni en bú­ist við því að verða á flakki næstu daga. Hún hafi sömu­leiðis fundið fyr­ir mikl­um og góðum stuðningi frá sín­um vin­um og vanda­mönn­um.

„Að finna stuðning­inn alls staðar frá það er ómet­an­legt en ég segi fyr­ir mitt leyti að ég slapp vel því það voru tveir sem misstu allt sitt,“ seg­ir Geir­dís.

„Það sem er mik­il­væg­ast af öllu er að það varð ekki meira tjón á fólki. Dauða hluti má alltaf bæta.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert