Óskað var eftir aðstoð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag vegna einstaklings sem neitaði að yfirgefa mathöll í borginni. Einstaklingurinn yfirgaf þó staðinn þegar hann frétti að búið væri að kalla til lögreglu.
Lögreglustöð eitt sinnti verkefninu en hún sinnir verkefnum í stórum hluta borgarinnar og á Seltjarnarnesi.
Lögreglan var einnig kölluð til á kaffihús í borginni þar sem tveir einstaklingar neituðu að yfirgefa staðinn eftir að hafa brotið reglur kaffihússins.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um verkefni hennar frá klukkan 5 í morgun og til klukkan 17 í dag. Alls voru 122 mál bókuð í kerfi lögreglunnar á tímabilinu.
Fjórir ölvaðir einstaklingar voru til vandræða í verslun og var lögreglustöð eitt kölluð á vettvang til aðstoðar.
Þá barst tilkynning um árekstur þar sem tvær bifreiðar rákust saman. Annar ökumaðurinn var grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og er hann vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Sömuleiðis var tilkynnt um árekstur í umdæmi lögreglustöðvar fjögur, sem sinnir meðal annars verkefnum í Grafarvogi, Grafarholti og í Mosfellsbæ, þar sem draga þurfti aðra bifreiðina af vettvangi. Ökumenn fundu fyrir smávægilegum meiðslum og fóru sjálfir á bráðamóttöku Landspítalans til frekari aðhlynningar.