„Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn“

Ríki, sveitarfélög og fyrirtæki eru hvött til að láta ekki …
Ríki, sveitarfélög og fyrirtæki eru hvött til að láta ekki deigan síga. mbl.is/Árni Sæberg

Samtök atvinnulífsins og breiðfylking stéttarfélaga skora sameiginlega á ríki, sveitarfélög og fyrirtæki landsins til þess að styðja við markmið kjarasamninga með því að halda aftur af gjaldskrár-, skatta- og verðhækkunum eins og þeim er frekast unnt, og enn fremur lágmarka launaskrið og gæta vel að skilyrðum til verðmætasköpunar á Íslandi.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu Samtaka atvinnulífsins, Starfsgreinasambands Íslands, Eflingar og Samiðnar.

„Það blasir við að mesti ávinningur heimila, launafólks og fyrirtækja er að tryggja verðstöðugleika sem tryggir áframhaldandi minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn,“ segir þar jafnframt.

Mikilvægt að huga að rekstrarskilyrðum

Vísað er til þess að með samstilltu átaki hafi tekist að gera tímamótkjarasamninga í upphafi síðasta árs, stöðugleikasamninga með skýr markmið.

Samningarnir hafi það markmið að stuðla að minni verðbólgu og lækkun vaxta, fyrirtækjum og heimilum til hagsbóta. 

Þeir hafi verið gerðir í því trausti að aukin verðmætasköpun stæði undir þeim kostnaðarauka sem samningarnir fólu í sér fyrir atvinnulífið. Það sé því mikilvægt að huga sérstaklega að rekstrarskilyrðum atvinnulífs og einstaka atvinnugreina.

„Áherslur í aðdraganda og kjölfar samninganna birtast okkur nú síðast í megináherslum nýrrar ríkisstjórnar um stöðugleika. Samstaða á meðal fyrirtækja, stjórnvalda og almennings hefur þegar skilað því að verðbólga hefur hjaðnað og vextir eru byrjaðir að lækka.“

Eru ríki, sveitarfélög og fyrirtæki hvött til þess að leggjast á eitt við að tryggja stöðugleika á komandi misserum og láta ekki deigan sína þegar loks sé farið að sjást til lands í þessu krefjandi verkefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert