Áhrif aflagðrar staðreyndavaktar hverfandi

Guðmundur Jóhannsson samskiptastjóri telur áhrif horfinnar staðreyndavaktar Meta hverfandi enda …
Guðmundur Jóhannsson samskiptastjóri telur áhrif horfinnar staðreyndavaktar Meta hverfandi enda hafi hún fram til þessa verið í skötulíki. Samsett mynd

„Ef ég á að vera al­veg hrein­skil­inn held ég að áhrif­in verði ekk­ert gíf­ur­leg af því að Meta hef­ur hingað til bara staðið sig mjög illa í þess­ari staðreynda­vakt,“ seg­ir Guðmund­ur Jó­hanns­son sam­skipta­stjóri Sím­ans í sam­tali við mbl.is sem í vik­unni greindi frá því að staðreynda­vakt Meta með sam­fé­lags­miðlum sín­um inn­an Banda­ríkj­anna, Face­book og In­sta­gram, yrði lögð af.

„Við ætl­um að losa okk­ur við þá sem hafa verið á staðreynda­vakt­inni, þar sem þeir hafa verið of hlut­dræg­ir póli­tískt séð og hafa dregið meira úr trausti frem­ur en að efla það, þá sér í lagi í Banda­ríkj­un­um,“ sagði Mark Zucker­berg, stofn­andi og for­stjóri Meta, í færslu sem hann birti um málið.

„Þegar við skroll­um gegn­um forsíðuna á Face­book sjá­um við alls kon­ar efni sem við vit­um strax, með smá gagn­rýn­inni hugs­un, að er bull og vit­leysa,“ held­ur sam­skipta­stjór­inn áfram og bæt­ir því við að staðreynda­vakt Meta hafi ekki verið virk nema á því sem fyr­ir­tækið skil­greini sem fjöl­miðla eða frétta­veit­ur.

„Þar hef­ur verið haldið uppi sam­vinnu við aðila sem stemma af það sem þarna er sagt, en það breyt­ir því ekki að það er svo ótrú­lega mikið á miðlun­um þeirra [Meta] sem er bull og vit­leysa og bygg­ir ekki á staðreynd­um eða sann­leika,“ seg­ir Guðmund­ur og tel­ur ein­sýnt að aflagn­ing staðreynda­vakt­ar­inn­ar hafi því hverf­andi áhrif fyr­ir all­an þorra not­enda.

Úr 30.000 fet­um

„Ef maður reyn­ir að horfa á þetta úr þrjá­tíu þúsund fet­um þýðir þetta kannski að upp­lýs­inga­óreiðan verði eitt­hvað aðeins minni og ein­hverj­ir aðilar, sem hafa kannski verið að stunda dreif­ingu fals­frétta eða koma af stað ein­hvers kon­ar upp­lýs­inga­óreiðu, hafi kannski stærri leik­völl fyr­ir vikið því þeir þurfi ekki leng­ur að hafa áhyggj­ur af því að verða kannski gripn­ir eða sýnt fram á að efni þeirra sé bull,“ tel­ur Guðmund­ur.

Þess­ir aðilar muni þar með bara verða viss­ari í sinni sök um að þeir geti látið móðan mása á miðlun­um án þess að rönd verði við reist. En tel­ur sam­skipta­stjór­inn þá að dreif­ing vís­vit­andi rangra upp­lýs­inga sé mjög snar þátt­ur í notk­un­ar­gildi sam­fé­lags­miðla?

„Á al­heimsvísu já, á Íslandi ekki eins mikið, hér er þetta öðru­vísi þar sem þetta hef­ur mun meira að segja á stærri mörkuðum eins og í Banda­ríkj­un­um og Bretlandi. Þetta hef­ur verið sér­stak­lega virkt þegar kosn­ing­ar eða aðrir ámóta stórviðburðir standa fyr­ir dyr­um. Það ekki við að nema ör­litlu leyti við á Íslandi,“ svar­ar Guðmund­ur og klykk­ir út með því að af­lögð staðreynda­vakt Meta muni tæp­lega hafa nokk­ur áhrif sem vert sé að nefna á hinn venju­lega Íslend­ing sem not­ar Face­book.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert