Stefán E. Stefánsson
Jakob Birgisson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra fullyrðir að hann sé valdameiri en Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins. Ekki hafi þurft prófkjör eða þingframboð til.
Þetta kemur fram í viðtali við Jakob á vettvangi Spursmála á mbl.is.
Þar er Jakob spurður út í það hvort færa megi rök fyrir því að aðstoðarmaður ráðherra, sem standi í miðri hringiðu stjórnmálanna og stjórnkerfisins, sé ekki áhrifameiri en óbreyttur þingmaður, hvort sem er í stjórn eða stjórnarandstöðu.
Er samanburður dreginn við góðan vin Jakobs, Snorra fyrrnefndan Másson.
Það stendur ekki á svari hjá Jakobi, sem ekki er aðeins aðstoðarmaður ráðherra heldur einnig í hópi vinsælustu uppistandara landsins.
„Já, já. Ég er valdameiri en Snorri Másson. Er það ekki það sem þú vilt að ég segi?“
Og Jakob slær á létta strengi þegar hann er spurður út í hvaða mál hann hyggist leggja áherslu á meðan veru hans í ráðuneytinu stendur:
„Það eru útlendingamálin.“
Viðtalið við Jakob má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan. Ásamt honum mætir þar til leiks Marta María Winkel Jónasdóttir.