Kostnaður við Elvanse stóraukist

Tæplega átta þúsund manns voru á ADHD-lyfinu á síðasta ári.
Tæplega átta þúsund manns voru á ADHD-lyfinu á síðasta ári. Ljósmynd/Colourbox

Kostnaður íslenska ríkisins vegna greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands við ADHD-lyfið Elvanse Adult nam 958 milljónum á fyrstu 11 mánuðum síðasta árs og ef fram heldur sem horfir verður kostnaðurinn kominn yfir milljarð á þessu ári.

Kostnaður við greiðsluþátttöku hefur hækkað skarpt á undanförnum árum, en ekki er langt síðan lyfið kom á markað. Árið 2019 fékk 601 niðurgreiðslu frá Sjúkratryggingum vegna Elvanse Adult en á fyrstu 11 mánuðum síðasta árs fengu 7.982 manns greiðsluþátttöku með lyfinu.

Milli ára fjölgar þeim um rúmlega þúsund en mesta fjölgun milli ára var á milli áranna 2021 og 2022.

Á síðustu fimm árum hefur kostnaður ríkisins vegna greiðsluþátttöku við ADHD-lyfið numið rúmum 3,4 milljörðum króna.

Kort/mbl.is

Tekist hefur verið á um lyfið, en skortur var á lyfinu árið 2023 og hefur af og til borið á skorti. Þannig greindi Morgunblaðið frá því í nóvember 2023 að fólk keyrði á milli apóteka í leit að lyfinu sem ófáanlegt var í sumum apótekum. Þá varaði Lyfjastofnun við því í desember sama ár að fólk hefði hamstrað lyfið á meðan skorturinn var sem mestur og fengu lyfjafræðingar tímabundinn lesaðgang að lyfjagagnagrunni embættis landlæknis, fyrir tilstuðlan Lyfjastofnunar, til að koma í veg fyrir afgreiðslu lyfsins í óþarflega miklu magni.

Í kjölfarið gagnrýndi lyfjafræðingur hversu margir fengu uppáskrifað lyfið og sagði „villta-vesturs-stemningu“ ríkja í kringum lyfið. Sagði hann að dæmi væru um að geðlæknar virtu að vettugi leiðbeiningar framleiðanda um skammtastærðir og skrifuðu upp á margfalt hærri skammta.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert