Ekki liggur fyrir hvenær nýtt Alþingi kemur saman, en beðið er álits landskjörstjórnar um framkomnar kærur vegna framkvæmdar þingkosninganna, en bæði Framsóknarflokkur og Píratar kærðu framkvæmdina í Suðvesturkjördæmi.
Fram hefur komið að þess megi vænta að álitinu verði skilað til Alþingis í næstu viku. Þegar álitið liggur fyrir verður kölluð saman undirbúningsnefnd Alþingis um rannsókn kosninga til að fara yfir álitið, en óljóst er hversu langan tíma það tekur.
Forsætisráðherra gerir tillögu til forseta lýðveldisins um að kalla Alþingi saman. Það verður þó ekki síðar en 8. febrúar, en skv. stjórnarskrá ber að gjöra svo ekki síðar en 10 vikum eftir kosningar.