Pyntuðu mann í tvo tíma í Vatnagörðum

Frelsissviptingin átti sér stað í janúar 2023 þar sem einum …
Frelsissviptingin átti sér stað í janúar 2023 þar sem einum manni var haldið föngnum í rúmar tvær klukkustundir. Hann var barinn, afklæddur og bundinn, en honum tókst á endanum að komast út á nærbuxunum einum klæða. Ljósmynd/Colourbox

Héraðssaksóknari hefur ákært þrjá menn fyrir ýmis brot, en tveir þeirra, X og Y, eru ákærðir fyrir stórfellda líkamsárás, hótanir, brot gegn blygðunarsemi, kynferðislega áreitni og ólögmæta nauðung í tengslum við frelsissviptingu sem átti sér stað í janúar 2023. 

Fram kemur í ákærunni, sem telur fimm blaðsíður, að X og Y, hafi í sameiningu staðið að því að svipta mann frelsi sínu í ávinningsskyni í rúma tvo tíma í húsnæði að Vatnagörðum í Reykjavík. Maðurinn var beittur ofbeldi, afklæddur og bundinn fastur með límbandsrúllu. Þá höfðu þeir sett upp myndbandsupptökuvél í herberginu til að mynda ofbeldið.

Manninum tókst hins vegar eftir rúmar tvær klukkustundir að flýja á nærbuxum einum klæða en mennirnir náðu honum aftur og manninum var svo sleppt skömmu síðar. 

Y er sérstaklega ákærður fyrir stórfellda líkamsárás, hótanir og brot gegn blygðunarsemi, kynferðislega áreitni og ólögmæta nauðung gagnvart manninum. Hann beitti manninn margvíslegu ofbeldi og hótunum um ofbeldi. Y klæddi m.a. manninn úr fötunum án vilja hans, sló hann með belti í höfuðið, veitti honum hnéspörk og reka rassinn á sér í andlit mannsins. 

Þriðji maðurinn, Z, er í sama máli ákærður fyrir líkamsárás, kynferðislega áreitni og látið fyrir farast að koma manni til bjargar á meðan frelsissviptingunni stóð.  

Fíkniefnasending frá Malaví

Þá var einn mannanna, X, einnig ákærður fyrir tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots með því að hafa föstudaginn 4. júní 2021 sótt og þannig reynt að taka við 529,34 g af metamfetamínkristöllum. Var styrkur metamfetamínbasa á bilinu 65-67% sem samsvarar 81-83% styrkleika af metamfetamínklóríði. Var þetta ætlað til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. 

Fram kemur í ákærunni að fíkniefnin hafi verið falin í gjafapakka sem innihélt skjalamöppu þar sem efnunum hafði verið komið fyrir. X var skráður móttakandi fyrir sendingunni. Gjafapakkinn kom hingað til lands með póstsendingu frá Malaví fimmtudaginn 3. júní 2021 en lögreglan lagði hald á sendinguna og fjarlægði efnin úr skjalamöppunni.

Dulbúinn lögreglumaður

Daginn eftir hafði lögregla samband símleiðis við manninn, undir þeim formerkjum að um væri að ræða starfsmann póstsendingafyrirtækisins í því skyni að mæla sér mót við ákærða til þess að afhenda sendinguna.

Síðar um daginn hitti X dulbúinn lögreglumann við bensínstöð þar sem hann tók á móti sendingunni. Hann var handtekinn í kjölfarið. 

Þá var X einnig ákærður fyrir fíkniefnalagabrot fyrir að hafa haft í vörslum sínum lyfseðilsskyld fíknilyf, eða samtals 28 stykki af oxycodone-töflum. Maðurinn hafði ekki lyfseðil fyrir fíknilyfjunum. 

Vafasamar 28 milljónir

Þá var X ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa á tímabilinu 1. janúar 2020 til 4. júní 2021 tekið við, nýtt, umbreytt, afhent og/eða aflað sér ávinnings allt að fjárhæð 27.996.579 krónur með sölu og dreifingu á ótilteknu magni lyfja og eftir atvikum með öðrum ólögmætum og refsiverðum hætti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert