Enn hafa engar greiðslur borist bændum vegna tjóns sem þeir urðu fyrir vegna kalskemmda í túnum sl. vor, en ætlunin er að stjórn Bjargráðasjóðs fundi í dag þar sem til stendur að afgreiða umsóknir vegna kaltjóns.
Þetta kemur fram í svari matvælaráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Segir þar að í framhaldinu muni sjóðurinn greiða samþykkta styrki út eins fljótt og unnt er, en ákveðin dagsetning liggi þó ekki fyrir. Þó er gert ráð fyrir að það verði í þessum mánuði. Að því loknu mun sjóðurinn geta svarað til um fjölda greiðslna og nánari tilhögun þeirra.
Gagnavinnsla vegna tjóns bænda af völdum kuldakasts sl. vor er sögð skemmra á veg komin og segir ráðuneytið hvorki hægt að svara til um fjölda þeirra sem fyrir tjóni urðu né um eðli tjónsins. Greiðslur vegna þess tjóns munu koma frá matvælaráðuneytinu eins og áður hefur fram komið.
Segir ráðuneytið að þar sé um að ræða sértæka aðgerð sem ekki hefur verið framkvæmd áður, en ferli málsins sé samkvæmt áætlun og innan tilskilins tímaramma. Starfshópur ráðuneytisstjóra forsætis-, fjármála- og matvælaráðuneyta er að störfum vegna þessa og er að fara nánar yfir skráningar tjóna og gera tillögu að stuðningsaðgerðum sem ætlað er að skilað verði til matvælaráðherra fljótlega.
Tjón bænda vegna kuldakasts og óvenjulegs veðurfars í fyrra er áætlað rúmur milljarður króna og tekur til tjóns á 375 búum, að mati Bændasamtakanna og Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins.