Breytt fyrirkomulag til Bretlands: Aukið öryggi

Frá Heathrow-flugvelli í Bretlandi.
Frá Heathrow-flugvelli í Bretlandi. AFP

Aukið öryggi og aukin skilvirkni eru tvær helstu forsendur þess að einstaklingar þurfi brátt að útvega sér rafrænt ferðaleyfi ætli þeir sér að halda til Bretlands.

Greint var frá málinu snemma í desember þar sem fram kom að frá og með 2. apríl 2025 þurfa allir á leið til Bretlands að hafa sótt um rafrænt ferðaleyfi, eða Electronic Travel Authorisation (ETA), áður en þeir ferðast.

Verður einnig tekið upp á meðal Schengen-ríkja

Að sögn Jóhönnu Jónsdóttur, varamanns sendiherra Íslands í London, er um sambærilegt kerfi að ræða og Bandaríkin hafa verið með árum saman.

Þá sé einnig um sambærilegt kerfi að ræða og Schengen-ríkin stefni á að taka upp á næstunni en skilst Jóhönnu að ekki sé komin endanleg dagsetning á hvenær svipað kerfi verði tekið upp fyrir ríki innan Schengen-samstarfsins.

Verði það þá með þeim hætti að lönd utan Schengen-samstarfsins þurfi ferðaleyfi til þess að ferðast til landa innan þess.

Gerir landamæraeftirliti kleift að ganga hraðar fyrir sig

Hún segir sendiráðið hafa fundað nokkrum sinnum með breskum yfirvöldum vegna komandi ferðaleyfisins og segja þau tvær ástæður liggja að baki þess að brátt þurfi ferðaleyfi til þess að ferðast til landsins.

Í fyrsta lagi sé það til þess að auka öryggi á landamærunum en margar milljónir manna koma til Bretlands daglega.

Í öðru lagi muni það auka skilvirkni en segir Jóhanna að með forskráningum eigi landamæraeftirlit Bretlands að geta gengið hraðar fyrir sig þegar fólk kemur inn í landið.

1.738 krónur og gildir í tvö ár

Þá upplýsir hún að hægt verði að sækja um ferðaleyfið í gegnum app á síma og henni skilst að það muni ekki taka langan tíma að sækja um ferðaleyfið.

Mun það kosta tíu pund, eða 1.738 krónur miðað við gengið í dag, að sækja um leyfið og gildir það í tvö ár eða þar til vegabréf viðkomandi rennur út, en þá þurfi að sækja um á ný.

Von á frekari upplýsingum

Vekur Jóhanna athygli á að sækja þurfi um leyfið jafnvel þó einstaklingar séu einungis að millilenda í Bretlandi.

Þá nefnir hún að von sé á frekari upplýsingaherferð frá utanríkisráðuneyti Íslands til að vekja athygli á ferðaleyfinu fyrir einstaklinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert