Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra fundaði í gær með varnarmálaráðherrum ríkja sem styðja varnarbaráttu Úkraínu (Ukraine Defence Contact Group) um stöðuna á vígvellinum og stuðning ríkjanna við baráttu íbúa Úkraínu gegn innrásarstríði Rússlands.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
„Það var skýr samstaða á fundinum um mikilvægi þess að styðja við varnarbaráttu Úkraínu sem er samofin okkar eigin öryggi. Við kynntum starf ríkjahóps sem við leiðum ásamt Litháen sem vinnur að sprengjuleit- og eyðingu og þeim stuðningi sem Ísland veitir til varnar Úkraínu. Hann er alfarið í takt við það sem Úkraínumenn hafa sjálfir verið að óska eftir og við hlustum að sjálfsögðu. Þetta er sömuleiðis í takti við samþykktir Alþingis,“ er haft eftir Þorgerði Katrínu.
Segir í tilkynningunni að Volodimír Selenskí Úkraínuforseti hafi einnig sótt fundinn og þakkað fyrir stuðning ríkjanna sem og gert grein fyrir helstu áherslumálum Úkraínu í vörnum landsins.
Þá var rætt um stöðu stríðsins og áframhaldandi stuðningsaðgerðir, þar með talið þjálfunarverkefni, fjárfestingar og hergögn.
Varnarmálaráðherrar og fulltrúar um fimmtíu ríkja sem styðja varnarbaráttu Úkraínu sóttu fundinn ásamt Rustem Umerov, varnarmálaráðherra Úkraínu, og Mark Rutte, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Fundurinn var haldinn í Ramstein í Þýskalandi, segir í tilkynningunni.