Ísland mun styðja við uppbyggingu í lok stríðs

Utanríkisráðherrar Íslands og Úkraínu, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Andrí Sybíha.
Utanríkisráðherrar Íslands og Úkraínu, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Andrí Sybíha. AFP

Utanríkisráðherra bindur vonir við að stríði Rússlands og Úkraínu ljúki á þessu ári. Í kjölfar stríðs tekur við uppbygging Úkraínu sem Ísland mun styðja við.

„Ég vona það náttúrulega að stríðinu ljúki á þessu ári. Ég ætla að binda vonir við það,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is.

Þurfum á sterkri og öflugri Úkraínu að halda“

Hún segir að þegar stríðinu ljúki þá þurfi að hjálpa Úkraínumönnum að byggja upp innviði sína og að sá stuðningur verði ekki ósvipaður Marshall-aðstoðinni, sem Íslendingar þekkja.

„Við þurfum á sterkri og öflugri Úkraínu að halda, þessu mikla matarforðabúri okkar, en líka til þess að tryggja lýðræði og frelsi,“ segir Þorgerður.

Spurð hvort að það þýði að Íslendingar hjálpi við að fjármagna þá uppbyggingu segir hún að allar þjóðir, bæði innan sem utan Evrópusambandsins, skilji að Úkraína þurfi hjálp við að byggja upp samfélagið sitt.

Úkraína megi ekki vera leiksoppur stórvelda

Þor­gerður var í Úkraínu í vikunni þar sem hún hitti ut­an­rík­is­ráðherra og for­sæt­is­ráðherra lands­ins en þeir þökkuðu Íslandi fyr­ir stuðning þess við landið.

„Þarna úti undirstrikuðu þeir það að Úkraína mætti ekki vera leiksoppur stórveldanna, einhverra fárra ríkja, um það hvernig á að skipta heiminum á milli sín. Það má ekki verða einhver Jaltaráðstefna, heldur miklu frekar að það verði komið á réttlátum og varanlegum friði í Úkraínu og það verði ekkert um Úkraínu án Úkraínu.“

Ísland veit­ir land­inu 600 millj­ón­ir ís­lenskra króna fyr­ir sprengju­leit og að auki verða veitt­ar 400 millj­ón­ir ís­lenskra króna til að styðja við úkraínsk­an varn­ariðnað.

Fjár­veit­ing­arn­ar voru samþykkt­ar und­ir lok síðasta árs á Alþingi þvert á alla flokka og voru þær áður tekn­ar fyr­ir á Norður­landaráðsþing­inu í októ­ber þar sem Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seti var heiðurs­gest­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert