Leikskólinn Múlaborg í Ármúla verður stækkaður um þrjár til sex deildir svo hann rúmi allt að 120 börn til viðbótar við þau 48 sem nú sækja leikskólann. Um er að ræða stækkun upp á 455 til 910 fermetra.
Samþykkt var á fundi borgarráðs í gær að ganga til viðræðna við fasteignafélagið Heima um stækkun húsnæðis leikskólans í Ármúla 6. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið innan tólf mánaða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Leikskólinn Múlaborg starfar þegar á fyrstu hæð í húsnæði við Ármúla 6 en í erindi fasteignafélagsins Heima kemur fram að félagið sé tilbúið að breyta annarri og mögulega þriðju hæð hússins úr skrifstofurými í leikskóladeildir og starfsmannarými. Einnig verður hugað að stækkun leikskólalóðar til að mæta fjölgun barna.
Grófar hönnunarforsendur af hálfu Reykjavíkurborgar fyrir húsnæðið liggja fyrir og byggja má frumhönnun á þeim.
Í erindi Heima kemur jafnframt fram að húsnæðið hafi þegar verið tekið í gegn að utan, þ.e.a.s. skipt um glugga og fleira. Aðgengi sé frábært, næg bílastæði og lyfta í húsinu. Þá er talað um að áhersla verði lögð á hönnun sem endurspegli grænar lausnir.