Magnús Már er Mosfellingur ársins

Magnús Már Einarsson þjálfari meistaraflokks karla hjá Aftureldingu er Mosfellingur …
Magnús Már Einarsson þjálfari meistaraflokks karla hjá Aftureldingu er Mosfellingur ársins. Ljósmynd/Aðsend

Mosfellingur ársins 2024 er Magnús Már Einarsson, þjálfari meistaraflokks karla hjá Aftureldingu, en bæjarblaðið Mosfellingur stendur fyrir valinu á Mosfellingi ársins í 20. sinn.

Maggi, eins og hann er alltaf kallaður, afrekaði það á síðasta tímabili að koma knattspyrnuliði Aftureldingar í efstu deild.

Þetta er í fyrsta skipti sem karlalið Aftureldingar spilar í efstu deildinni en síðasta haust átti knattspyrnudeildin 50 ára afmæli.

Magnús Már er uppalinn Mosfellingur en hann byrjaði að æfa fótbolta með 6. flokki árið 1998 og spilaði upp alla yngri flokka í Aftureldingu og tók við sem aðalþjálfari liðsins 2019.

Magnús Már segir verðlaunin þau skemmtilegustu sem hann hafi hlotið …
Magnús Már segir verðlaunin þau skemmtilegustu sem hann hafi hlotið á ævinni. Ljósmynd/Aðsend

Skemmtilegustu verðlaunin

„Fyrir mig persónulega eru þetta skemmtilegustu verðlaun sem ég hef fengið á ævinni,“ segir Magnús Már snortinn.

Kveðst hann þakklátur öllum þeim sem að afrekinu hafi komið og nefnir þar leikmannahópinn, þjálfarateymið, sjálfboðaliðana, stjórn meistaraflokksráðs, stuðningsmenn og styrktaraðila.

„Mér finnst þessi verðlaun vera fyrir alla sem hafa hjálpað Aftureldingu að komast upp í efstu deild,“ segir Magnús Már.

„Þá vil ég nýta tækifærið og þakka fjölskyldu minni fyrir stuðninginn og sérstaklega foreldrum mínum og Önnu Guðrúnu eiginkonu minni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert