Miklar rakaskemmdir og mygla í Lögbergi

Lagadeild Háskóla Íslands hefur aðsetur í Lögbergi.
Lagadeild Háskóla Íslands hefur aðsetur í Lögbergi. Ljósmynd/HÍ

Í ljós hafa komið miklar rakaskemmdir og mygla í kjallara Lögbergs, þar sem lagadeild Háskóla Íslands hefur aðsetur. Mygla greindist einnig í ryksýnum sem tekin voru á annarri og þriðju hæð byggingarinnar. Rakaskemmdirnar eru til komnar vegna leka.

Þetta kemur fram í tölvupósti sem sendur var á laganema í gær.

Þar segir að strax og grunur vaknaði um myglu hafi kjallaranum verið lokað með góðri einangrun.

„Sérstakur búnaður hefur verið settur upp sem lokar á umgang og skapar undirþrýsting í kjallaranum. Undirþrýstingurinn veldur því að lokað er fyrir loftstreymi þaðan upp á efri hæðir en loft streymir þess í stað niður, þ.e. frá efri hæðum í húsinu og niður, en ekki frá kjallaranum. Lyftan fer ekki í kjallarann.“

Talið óhætt að nota rýmin á 2. og 3. hæð

Gert er ráð fyrir því að flutningur á bókum úr kjallara hafi orðið til þess að mygla greindist í sýnum sem tekin voru á annarri og þriðju hæð, en þau rými hafa verið þrifin af fagfólki, að segir í póstinum.

Miðað við tegund og umfang í niðurstöðum mælinga sé hins vegar óhætt að nota rýmin eftir að þau hafi verið þrifin.

Þá verði fylgst með húsnæðinu í framhaldinu og mælingar endurteknar ef þurfa þykir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert