Olga Lísa Garðarsdóttir, fyrrverandi skólameistari Fjölbrautaskólans á Suðurlandi, hefur verið verkefnaráðin af menntamálaráðuneytinu til að rýna í rekstur Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu (FAS).
Síðasta sumar var greint frá því að stjórnendum skólans hefði verið tilkynnt að leggja ætti niður jökla- og fjallaleiðsögunám skólans, en skólinn er sá eini á landinu sem býður upp á slíkt nám.
Menntamálaráðuneytið sendi í kjölfarið frá sér tilkynningu þar sem fram kom að ráðuneytið ætlaði ekki að leggja námið niður, enda væri það framhaldsskólanna að ákveða sitt námsframboð. Ráðuneytið kvaðst engu að síður hafa átt samtal við skólann um rekstur hans.
Í kjölfarið tjáði Lind Völundardóttir, skólameistari FAS, að námið væri umfangsmikið og dýrt en verið væri að leita leiða til þess að halda því áfram.
Í samtali við mbl.is staðfestir Olga Lísa Garðarsdóttir að hún hafi verið verkefnaráðin hjá ráðuneytinu.
„Ég er ekki að fara að halda utan um nein fjármál þar. Ég get sagt það að ég er að skoða skólann í heild sinni.“
Út frá útgjöldum?
„Yfirleitt í svona stofnun eins og framhaldsskóli er, þá tekur maður ekki bara einn lið út. Maður skoðar þetta heildstætt og ég er að því í rólegheitunum.“
Hún segir það gefa auga leið að þegar kostnaður er mikill þurfi að fara yfir þau mál eins og hver önnur í opinberum ríkisrekstri.
„Og það er það sem kom upp hérna á sínum tíma og það þarf náttúrulega að fylgja því eftir áfram og skoða það heildstætt með öðru,“ segir Olga.
„Við erum alltaf að rýna og ég tala nú ekki um núna á þessum tímum þar sem það er verið að rýna opinberan rekstur heilt yfir og þetta er bara partur af því,“ bætir hún við.
Segir hún fyrirkomulagið vera með þeim hætti að hún sé verkefnaráðin hjá menntamálaráðuneytinu. Hún nefnir að hún hafi verið starfsmaður ráðuneytisins í yfir 16 ár og að það séu engin nýmæli að fólk með reynslu sé fengið til að sinna alls konar verkefnum fyrir ráðuneyti.
„Það liggur ágætlega fyrir að nýta reynslu þeirra sem eru búnir að vera lengi til þess að skoða hlutina. Af því ég er hætt sem skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands.“
Hvenær muntu hefja störf?
„Ég er að skoða þetta í rólegheitunum. Það er enginn fastur tímapunktur þannig.“
Þá upplýsir Olga að hún muni ekki verða staðsett í grennd við skólann meðan rýni hennar stendur yfir. Hún sé búsett í Reykjavík og muni starfa þaðan.
Þurfa útgjöld skólans að fara í gegnum þig? Er rétt að segja það?
„Það liggur ekki fyrir. Við erum ekki komin þangað.“
Þá liggur heldur ekki fyrir hvort hún muni skila af sér einhvers konar úttekt eða skýrslu þegar störfum hennar fyrir ráðuneytið lýkur.