Rannsókn lögreglu á banaslysi aftur hjá ákærusviði

Frá aðgerðum björgunarsveita í Grindavík í janúar í fyrra.
Frá aðgerðum björgunarsveita í Grindavík í janúar í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í dag er eitt ár liðið frá banaslysinu í Grindavík þegar Lúðvík Pétursson féll í sprungu er hann var við störf í bænum og lést.

Rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum er lokið. Málið var sent til lögfræðisviðs embættisins í síðasta mánuði sem mun taka ákvörðun um hvort ákært verði í málinu. Fleiri en einn höfðu réttarstöðu sakbornings í nóvember þegar sagt var frá rannsókninni.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir í samtali við mbl.is að málið hafi verið sent aftur til rannsóknar. Hann segir að rannsóknardeild lögreglunnar hafi nú skilað málinu af sér öðru sinni inn á lögfræðisvið og hann reiknar með því að niðurstaða liggi fyrir fljótlega.

Slysið varð þegar unnið var við björgun á húsi í Hópshverfi í Grindavík. Verkið var unnið af verkfræðistofunni Eflu fyrir tilstilli Náttúruhamfaratryggingar Íslands.

Hugmyndin með verkinu var að fylla upp í sprungu sem lá að og við sökkul húss í Vesturhópi með það fyrir augum að hægt yrði að bjarga húsinu.

Lúðvík vann við jarðvegsþjöppun og við fylla í sprungur í Grindavík er þar höfðu myndast vegna öflugra jarðskjálfta.

Í byrjun desember samþykkti dómsmálaráðuneytið erindi fjölskyldu Lúðvíks um að fram færi rannsókn óháðra aðila á atvikinu en fjölskyldunni barst bréf þess efnis í nóvember. Þar kom fram að samþykkt hafi verið rýna í aðgerðir eða aðgerðarleysi á svæðinu í aðdraganda andlátsins. Fram kom að settur yrði á fót starfshópur til að gera athugun á atvikinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert