Varað við flughálku á vestanverðu landinu

Varað er við flughálku á vestanverðu landinu síðdegis í dag …
Varað er við flughálku á vestanverðu landinu síðdegis í dag þegar fer að rigna á frosna vegi. Ljósmynd/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Varað er við flughálku á vestanverðu landinu síðdegis í dag þegar fer að rigna á frosna vegi.

Það hlýnar í veðri víða í dag og einkum á vesturhelmingi landsins, með vætu á köflum. Veðurfræðingur segir á vef Vegagerðarinnar, umferðin.is, að mögulega verði krefjandi akstursskilyrði og flughált á köflum á meðan snjó og klaka tekur upp, og eins ef væta frýs þegar hún fellur á kalda vegi.

Þá segir í athugasemdum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands að síðdegis gangi í sunnan 13-20 m/s á norðanverðu Snæfellsnesi sem getur verið varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Þar segir einnig að aðfaranótt sunnudags gangi í suðaustan hvassviðri með rigningu. Búast megi við miklum leysingum, auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum. Mikilvægt er að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert