Bjóða út endurgerð á hluta Vatnsstígs

Svona sjá hönnuðirnir fyrir sér að gatan muni líta út. …
Svona sjá hönnuðirnir fyrir sér að gatan muni líta út. Tryggja á aðgengi bíla að lóðum við götuna. Tölvumynd/Hnit/Landslag

Borgarráð hefur heimilað umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir vegna endurgerðar Vatnsstígs á milli Laugavegar og Hverfisgötu. Gert er ráð fyrir að hefja framkvæmdir í mars næstkomandi og að þeim verði lokið í ágúst 2025.

Til stóð að bjóða verkið út síðastliðið haust en verkhönnun tók lengri tíma en gert var ráð fyrir. Því var ákveðið að fresta útboðinu.

Framkvæmdin er samstarfsverkefni með Veitum. Heildarkostnaðaráætlun er 160 milljónir króna og þar af er hluti Reykjavíkurborgar 100 m.kr.

Framkvæmdin felst í endurgerð götu og veitukerfa á Vatnsstíg milli Laugavegar og Hverfisgötu. Um er að ræða upprif og förgun á núverandi yfirborði, losun klappar, jarðvegsskipti, lagningu fráveitu-, vatns- og hitaveitulagna, ásamt lagningu raf- og ljósleiðaralagna.

Gatan verður í framtíðinni hellulögð göngugata með snjóbræðslu, gróðurbeðum og götugögnum. Nýtt yfirborð verður sams konar og er á Laugavegi við Frakkastíg. Frágangur tengist framtíðarskipulagi og endurgerð á Laugavegi.

Þótt Vatnsstígur verði göngugata verður aðgengi bíla að lóðum tryggt.

Nánar má lesa um málið í laugardagsblaði Morgunblaðsins. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert