Guðrún Aspelund sóttvarnarlæknir segir ekki hægt að fullyrða að landinn sé sloppinn fyrir horn þó að inflúensutilfellum fari fækkandi nú í byrjun árs.
„Maður vonar auðvitað það besta en það er ekki alveg ljóst,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is.
Of snemmt sé að vera með slíkar fullyrðingar enda jól og áramót nýliðin hjá sem sé óvenjulegur eða óreglulegur tími árs hjá flestum. Margir séu að koma heim úr ferðalögum og margir hafi ekki endilega haft heilsuna í forgangi yfir hátíðirnar.
„En svo getur gerst að það verði fleiri tilfelli af inflúensu B. Sum ár er meira um hana en yfirleitt er meira um inflúensu A hér. Svo sum ár kemur meira af B og þá oft aðeins seinna. Það er meira um hana í Evrópu en hér hjá okkur,“ segir Guðrún.
„En ef þetta heldur áfram með þessu móti þá er þetta nú ekkert agalegt,“ segir Guðrún.
Samkvæmt gögnum sóttvarnarlæknis greindust færri með inflúensu árið 2024 en árin 2022-2023. Spurð hvað kunni að liggja þar að baki segir Guðrún inflúensutilfelli geta verið mjög ólík milli ára.
Í Covid-19 faraldrinum hafi verið lítið um inflúensu og raunar engin tilfelli greinst veturinn 2020. Því kunni að vera nokkrar skýringar á, en til dæmis jókst þátttaka í inflúensubólusetningum mikið samhliða Covid-19 bólusetningum og færri sjúkdómar bárust á milli landa þar sem fólk var minna á ferð.
Fólk hafi því verið mun næmara árin á eftir, eins og búast megi við þegar fáir eða enginn hafi fengið inflúensu í nokkur ár og fólk byrjað að ferðast á ný. Þátttaka í bólusetningum hafi sömuleiðis farið hratt á niðurleið og sé í dag einungis um 45% á meðal 60 ára og eldri.
„Þá er fólk almennt næmara þó ónæmiskerfið í sjálfu sér sé ekkert öðruvísi.“
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælist til þess að um 70% einstaklinga yfir 60 ára, auk viðkvæmra hópa, séu bólusett við inflúensu. Guðrún segir þátttökuna á Íslandi hafa aldrei náð slíkum hæðum fyrir utan á tímum heimsfaraldursins þegar inflúensubólusetningar jukust. Almennt sé þátttakan í kringum 50%.
Spurð hvað kunni að liggja þar að baki segir Guðrún ekki gott að segja til um það. Embætti landlæknis hafi ekki gert könnun á því en eflaust séu til einhverjar háskólagreinar sem fjalli um það.
Hún minnir á að ekki sé orðið of seint fyrir fólk að fara í bólusetningu og að til þess sé mælst við fólk yfir 60 ára og fólk í áhættuhópum.
„Það eru margir sem segja að þetta virki ekki því þeir hafi samt fengið inflúensu, en bólusetningar eru misgóðar milli ára og koma ekki í veg fyrir smit heldur draga úr alvarlegum einkennum.“