Veitingamenn kölluðu lögreglu til þegar félagsmenn Eflingar mótmæltu fyrir utan veitingastaðinn Finnsson í Kringlunni um hádegisleytið í dag. Formaður Eflingar segir að Finnsson semji við „gervistéttarfélagið“ Virðingu.
SVEIT hefur fordæmt mótmælin, þau hafi hindrað starfsemi veitingahússins, og segist skoða réttarstöðu sína. Efling segir að mótmælin hafi verið friðsæl. Auk þess sakar Efling SVEIT um að „njósna um starfsfólk veitingahúsa“ og hefur sent erindi til Persónuverndar þess efnis.
„Óskar Finnsson, eigandi Finnsson, er að notast við gervistéttarfélagið Virðingu,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við mbl.is að mótmælum loknum en hún segir þau hafa staðið yfir í um 40 mínútur.
Efling hefur háð ákafa herferð gegn Virðingu og telur að það félagið hafi verið stofnað af SVEIT, samtökum fyrirtækja í veitingarekstri, til þess að geta samið um lægri kjör við stafsfólk heldur en samningar Eflingar geri ráð fyrir. Mörg af stærstu stéttarfélögum landsins hafa fordæmt Virðingu.
Sólveig bendir á að í það minnsta einn starfsmaður Finnssonar sé skráður í Virðingu. Óskar Finnsson hafi sjálfur tjáð fulltrúa vinnustaðaeftirlits verkalýðshreyfingarinnar að hann ætlaði sér að notast við Virðingu. Efling hafi auk þess sent honum ítrekuð erindi en Óskar ekki svarað.
Í yfirlýsingu sem SVEIT sendi frá sér um kl. 13 í dag segir að veitingamenn hafi þurft að kalla til lögreglu eftir að fulltrúar á vegum Eflingar reyndu að „hindra starfsemi á veitingahúsi“. Fulltrúar hafi truflað ró gesta og starfsemi staðarins.
„Er framkoma Eflingar hörmuð og fordæmd,“ skrifar SVEIT. „Aðgerðir Eflingar eru augljós lögbrot og miða að því að koma rekstri veitingastaða í þrot og svipta fjölda fólks lífsviðurværi sínu á grundvelli geðþóttaákvörðunar forsvarsmanna verkalýðsfélagsins.“
SVEIT segr að kjarasamningur við Virðingu hafi verið gerður eftir að Efling hafnaði kjaraviðræðum. Samningurinn taki mið af „eðli veitingareksturs“ og tryggi starfsmönnum hærri dagvinnulaun og bætt kjör. Efling hefur bent á að dagvinnutíminn sé lengri í samningi Virðingar heldur en hjá Eflingu, frá 8-20 en ekki 8-17, auk þess sem að tímarnir frá kl. 08-16 á laugardögum teljist til dagvinnutíma samkv. samningi Virðingar.
„Efling hefur gríðarlega hagsmuni af málinu en þúsundir starfsmanna greiða í sjóði Eflingar milljarð á ári og stéttarfélagið á því mikið undir að reyna að eyðileggja samningana með áróðri og árásum til að halda í þá fjármuni,“ skrifar SVEIT, sem hvetur Eflingu til að láta af slíkum aðgerðum tafarlaust, þar sem þær valdi miklum skaða fyrir greinina í heild, bæði starfsfólk og rekstraraðila.
Stéttarfélagið eigi frekar að fara eftir viðurkenndum leiðum og fá dómstóla til að skera úr um gildi samningsins „SVEIT mun í framhaldi af árásum forsvarsmanna Eflingar á starfsemi félagsmanna sinna skoða réttarstöðu sína.“
Spurð út í yfirlýsinguna frá SVEIT er varðar það að Efling hafi hagsmuna að gæta af málinu svarar Sólveig:
„Það er ömurlegt að vera vitni að því að þegar fólk opinberar það með hætti sem þessum að það eina sem það virðist valda mótvægi við aðra sé ágirnd í fé. Þó það eigi mögulega við um forsvarsmenn SVEIT og þá sem stofnuðu Virðingu gervistéttarfélag þá á það sannarlega ekki við um Eflingu.“
Hún segir að eina „geðþóttaákvörðunin“ í þessu máli sé „sú ömurlega geðþóttaákvörðun forsvarsmanna SVEIT eftir að hafa tapað dómsmáli í félagsdómi gegn Eflingu að fara í þá óverjandi vegferð til þess að lokka fólk í [Virðingu] til að hafa af fólki sín samningsbundnu laun.“
„Þeir veitingastaðir sem lýsa því yfir að brjóta kjarasamninga sem í laganna skilningi eru um lágmarkskjör á vinnumarkaði [...] og trúa því að það verði engar afleiðingar eru auðvitað bara menn sem búa ekki í þessum raunveruleika,“ segir Sólveig enn fremur.
Efling muni ekki hætta aðgerðum sínum þar til hún geti verið fullviss um að enginn vinnustaður á samnings- og félagssvæði Eflingar semji við Virðingu.
Sólveig Anna segir einnig að aðgerðir á borð við þessi mótmæli tíðkist í lýðræðissamfélögum þar sem tjáningarfrelsi og málfrelsi séu í hávegum höfð. Eina ónæðið sem hafi fylgt mótmælunum sé það ónæði sem veitingamennirnir hafi sjálfir bakað sér.
„Ætlar SVEIT að halda því fram að Efling megi ekki og geti ekki komið saman, nýtt málfrelsi félaga sinna, til að koma mikilvægum skilaboðum á framfæri?“ spyr Sólveig Anna, sem segir að hafi verið friðsamleg.
„Við stóðum og héldum á borðum. Við upplýstum fólk með því að nota gjallarhorn um það sem hér hefur átt sér stað,“ bætir hún við.
Þá hafi efling átt í friðsamlegum samskiptum við öryggisverði og lögreglu.
„Eina ónæðið sem af okkur hlaut var auðvitað þetta ónæði sem Óskar Finnsson og aðrir eigendur verða fyrir þegar við segjum gestum og gangandi frá því hvers konar auðvirðilega hegðun þeir eru færir um að sýna gagnvart láglaunafólki á íslenskum vinnumarkaði.“
Efling telur enn fremur um að samningar Virðingar brjóti gegn persónuverndarlögum og reglugerð Evrópusambandsins um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga.
Í yfirlýsingu frá Eflingu segir að í ákvæðum samningi Virðingar komi fram að veitingahúsaeigendur „megi njósna um starfsfólk sitt með hljóð- og myndbandsupptökum, hvar sem er og hvenær sem er, nema rétt þegar fólk bregður sér á klósett eða það skiptir um föt.“
Sólveig segir að Efling sé búin að upplýsa Persónuvernd um málið.