Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, kallar eftir því að flokksþingi verði flýtt. Hún telur að framsóknarmenn þurfi að líta inn á við og takast á við stöðuna.
„Versta kosninganiðurstaða Framsóknar í 108 ára sögu flokksins. Við verðum að horfa inn á við, takast á við þá stöðu sem uppi er og byggja upp Framsókn. Tek undir með Lilju, flýtum flokksþingi,“ skrifar Magnea Gná í færslu á Facebook.
Versta kosninganiðurstaða Framsóknar í 108 ára sögu flokksins. Við verðum að horfa inn á við, takast á við þá stöðu sem uppi er og byggja upp Framsókn. Tek undir með Lilju, flýtum flokksþingi. ⚡️
Posted by Magnea Gná - borgarfulltrúi Framsóknar í Reykjavík on Fimmtudagur, 9. janúar 2025
Kjördæmasamband framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmunum samþykkti á fimmtudag að óska miðstjórnarfundar svo flýta megi flokksþingi.
Framkvæmdastjórn Framsóknarflokksins ákvað í gær að verða við tilmælum kjördæmasambands. Hefur því landsstjórn flokksins verið kölluð saman, en hún mun eiga fund hinn 30. janúar til þess að boða fund hjá miðstjórn Framsóknarflokksins. Miðstjórnin mun svo fjalla um beiðni kjördæmissambandsins um að boða til landsþings flokksins fyrr en áskilið er.
Innan flokksins hafa heyrst raddir um að Sigurður Ingi Jóhannsson formaður þurfi að axla ábyrgð á kosningaósigrinum, en hann er á öðru máli.