Hefur störf hjá Apple á morgun

Ingvi Hrannar Ómarsson hefur störf á morgun í höfuðstöðvum Apple …
Ingvi Hrannar Ómarsson hefur störf á morgun í höfuðstöðvum Apple í Kísildalnum í Kaliforníu. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég hef alltaf haft áhuga á því að prófa nýja hluti og hugmyndir,“ segir Skagfirðingurinn Ingvi Hrannar Ómarsson, en á morgun, mánudag, hefur hann nýtt starf sem menntahönnuður (Instructional Designer) í menntateymi Apple-fyrirtækisins í höfuðstöðvunum Apple Park í Kaliforníu.

Ingvi segir að nú hefjist nýr kafli hjá sér. Hann haldi þó áfram á þeirri braut sem hann hafi gengið allt frá því að hann útskrifaðist sem kennari. Nú muni hann starfa á enn stærri vettvangi.

„Ég verð m.a. að vinna í því að búa til kennsluefni og starfa með kennurum um allan heim og móta hvernig menntasvið Apple verður þróað áfram.“

Langt ráðningarferli

Ráðningarferli stórfyrirtækja eins og Apple er ekki neitt sem gerist í einum hvelli, heldur nær ferlið yfir nokkra mánuði og fjölmörg viðtöl þar til ákvörðun hefur verið tekin um ráðningu.

„Ég er mjög spenntur að hefja störf og vinna með frábæru fólki og svo er ég mjög ánægður með að vera kominn með eitt heimili. Ég og unnusta mín höfum verið að vinna hvort á sínum staðnum undanfarin ár, ég á Íslandi og hún í New York, svo það var góð ákvörðun að ákveða að flytja hingað til Kaliforníu núna síðastliðið haust.“

Símenntun skilar sér

Hvernig liggur leið Skagfirðings til eins stærsta hátæknifyrirtækis heims í Kísildalnum?

„Ég er í grunninn kennari og hóf ferilinn í Árskóla á Sauðárkróki árið 2010 með góðu fólki. Árið 2012 fengu nemendurnir í bekknum öll iPad og þar hefst skemmtileg vegferð í því að nota tækni og búa þau undir framtíð sína en ekki fortíðina okkar,“ segir Ingvi. Árið 2013-14 fór hann til Lundar í Svíþjóð og lærði þar frumkvöðlafræði og nýsköpun.

„Ég held að kennarar þurfi alltaf að vera að læra, og þessi forvitni og vilji til að auka stöðugt við þekkinguna skilar sér til nemendanna.“

Hann var ráðinn sem kennsluráðgjafi í upplýsingatækni, skólaþróun og nýsköpun árið 2014 á fræðslusviði sveitarfélagsins Skagafjarðar. Þá fór hann í annað meistaranám við Stanford-háskóla árið 2019 þar sem hann lærði námshönnun með áherslu á innleiðslu tækni (Learning, Design & Technology). Eftir námið kom hann heim í heimsfaraldrinum og hóf störf sem sérfræðingur í mennta- og barnamálaráðuneytinu.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu föstudaginn 10. janúar.

Apple Park í Kaliforníu, höfuðstöðvar tölvurisans, sem verður vinnustaður Ingva …
Apple Park í Kaliforníu, höfuðstöðvar tölvurisans, sem verður vinnustaður Ingva Hrannars á næstunni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert