Hljóp í burtu frá lögreglu

Verkefni lögreglu eru fjölbreytt.
Verkefni lögreglu eru fjölbreytt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglu var tilkynnt um slagsmál fyrir utan skemmtistað en þar hafði manni verið vísað út vegna óláta. Þegar lögreglu bar að garði hljóp maðurinn á brott en hann var eltur uppi og handsamaður.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem greint er frá verkefnum lögreglu frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun. 

Lögreglustöð eitt, sem sinnir verkefnum í stórum hluta borgarinnar og á Seltjarnarnesi, fór í útkallið. 

Sama lögreglustöð sinnti útkalli vegna líkamsárásar, en gerandi var farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að garði. Málið er í rannsókn.

Þá var einn handtekinn í miðbænum þar sem hann var með ógnandi tilburði. Hann var fluttur á lögreglustöð og skýrsla rituð vegna málsins.

Lögreglustöð þrjú, sem sinnir verkefnum í Breiðholti og Kópavogi, var tilkynnt um þjófnað í verslun, en málið var leyst með skýrslutöku á vettvangi.

Lögreglustöð tvö, sem sinnir verkefnum í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi var kölluð til vegna eignaspjalla, en þar hafði rúða verið brotin í heimahúsi. Málið er í rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert