Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra veitti breska fréttamiðlinum Guardian viðtal á dögunum. Blaðamaðurinn Miranda Bryant tók viðtalið við Kristrúnu í forsætisráðherrabústaðnum á Þingvöllum og birtist það á forsíðu Guardian í morgun.
Í viðtalinu kemur fram að Kristrún hafi ekki haft í hyggju að mynda ríkisstjórn sem væri leidd af konum. „Ég held að það sé ákveðin dýnamík sem þú færð þegar þú ert með þrjár konur saman. Við erum líka með þrjár konur sem eru á ólíkum stigum ævi sinnar,“ segir Kristrún. Þá segir hún að ríkisstjórn sín verði vinstri-miðjustjórn.
Kristrún segist hafa lagt áherslu á að færa Samfylkinguna aftur að grunngildum sínum og reynt að höfða frekar til venjulegs fólks frekar en elítunnar með því að forgangsraða húsnæðis-, velferðar- og vinnumarkaðsmálum.
Í viðtalinu kemur einnig fram að skiptar skoðanir séu innan ríkisstjórnarinnar um hvort hefja eigi aðildarviðræður við Evrópusambandið á ný. Í stjórnarsáttamála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu fari fram eigi síðar en árið 2027.
„Það eru skiptar skoðanir innan ríkisstjórnarinnar um hvort þessi þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að enda með já-i eða nei-i, en það er ekki okkar að segja, ekki satt? Það er fólksins að segja, það er skoðun fólksins,“ segir Kristrún