Þú átt bara einn líkama!

Lóló segir að fólk eigi að æfa jafnt og þétt …
Lóló segir að fólk eigi að æfa jafnt og þétt allt árið.

Matthildur Rósenkranz Guðmundsdóttir, betur þekkt einfaldlega sem Lóló, hefur helgað líf sitt hreyfingu og hollustu. Lóló varð 75 ára á síðasta ári en er enn að vinna við að halda fólki í formi, veita því aðhald og gefa góð ráð. Hún hefur unnið sem kennari og einkaþjálfari hjá World Class í þrjátíu ár en hefur meðfram því verið fararstjóri hjá Úrval Útsýn. Þegar blaðamaður sló á þráðinn á öðrum degi ársins og falaðist eftir viðtali tók hún vel í það, enda alltaf til í að tala um ágæti heilbrigðs lífsstíls. Lóló var að sjálfsögðu í World Class í Laugum að klára að þjálfa viðskiptavini þegar blaðamann bar að garði. Á kaffihúsinu beið hún með tvö vatnsglös, í skærappelsínugulum íþróttafötum og eldhress, enda í toppformi!

Ég hef hreyft mig alla ævi

Lóló lærði íþróttafræði á Laugarvatni eftir menntaskóla og hóf svo kennslu í skólum.

„Ég fann fljótt að það hentaði mér ekki og fór þá að gera ýmislegt annað. Ég var flugfreyja í nokkur ár og stofnaði verslun og var í alls konar. En alltaf var ég sjálf að æfa og rækta mig; það er mitt áhugamál númer eitt, tvö og þrjú,“ segir hún.

„Svo fyrir þrjátíu árum fór ég út í það að þjálfa og kenna tíma hér í World Class,“ segir Lóló og segir aldurinn ekki aftra sér frá því að vinna, enda er heilsan í fínu lagi.

„Ég er í fullu fjöri og bý að því að hafa hreyft mig alla ævi. Það er enginn óhultur fyrir sjúkdómum, en með því að hugsa um sig skilar það sér í góðri heilsu og er forvörn. Ég er allveg sannfærð um það,“ segir hún.

„Þetta er mitt líf. Ég hef alla tíð hugsað vel um mig og þetta er mitt hjartans áhugamál. Mér líður svo vel í þessu starfi og nýt þess að geta hjálpað fólki að líða betur og að geta gefið því leiðbeiningar,“ segir Lóló, en hún kennir pilates og tekur fólk í einkaþjálfun.

Best að búa til rútínu

Í einkaþjálfun hjá Lóló er áhersla lögð á að viðhalda styrk, en hún er með nokkra eldri viðskiptavini.

„Við þurfum að lyfta og ekki síður þegar við eldumst, því við verðum að halda vöðvamassa og styrk. Um leið og þú ferð að missa vöðvamassa, ferðu að síga saman. Til að halda sér gangandi þarf að styrkja stoðkerfið. Bakið þarf að vera sterkt,“ segir hún.

Lóló er enn í fullu fjöri að kenna líkamsrækt þó …
Lóló er enn í fullu fjöri að kenna líkamsrækt þó aldurinn færist yfir.

„Svo þurfum við líka góðar teygjur. Þetta þarf allt að spila saman og ég vil að fólk gangi hér út ánægt með sig og alls ekki bugað. Ég vil að fólki finnist það endurnært, fullt af orku og að það hlakki til að mæta á næstu æfingu,“ segir Lóló.

„Hreyfingu fylgir svo mikil vellíðan og best er að fólk búi sér til rútínu því það gengur ekki að ætla sér bara í ræktina þegar maður nennir. Þetta á að vera jafn mikilvægt og að sofa og borða,“ segir Lóló og að oft gott að setja sér markmið og mæta að minnsta kosti þrisvar til fjórum sinnum í viku í ræktina.

„Þú þarft að sofa, borða og líka að æfa!“

Ekki borða rusl

Hreyfing og hollur matur er okkur nauðsyn og megrunarkúrar virka alls ekki, að sögn Lólóar.

„Ég er ekki næringarfræðingur en þetta er ekki flókið; fólk á að hugsa um það sem það setur ofan í sig. Ekki borða rusl heldur hreina fæðu og drekka vatn,“ segir hún.

„Þróunin er í öfuga átt, því miður, og það er sorglegt að horfa upp á þetta. Fólk er mikið að borða rusl,“ segir Lóló og segir þjóðina, sem sífellt þyngist, standa frammi fyrir vanda.

Hvaða ráð viltu gefa fólki nú í upphafi árs sem vill bæta heilsuna?

„Sem betur fer hefur þetta breyst og þeim fer fækkandi sem fara í átak í janúar. Heldur fer þeim fjölgandi sem stunda hreyfingu og hugsa um sig allt árið um kring. Ef maður hugsar vel um sig allt árið getur maður leyft sér að gera vel við sig um hátíðarnar. Aðalatriðið er að velja holla og hreina fæðu allt árið og æfa vel. Sofðu vel og hugsaðu vel um þig. Þetta er samspil og það þarf að halda þessu öllu í jafnvægi. Hvað ætlar þú að gera við líkama þinn? Þú átt bara þennan eina!“

Ítarlegt viðtal er við Lóló í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert