Allmikið lægðardrag hreyfist norðaustur yfir landið í dag og veldur suðaustanstrekkingi eða hvassviðri með rigningu og hlýindum, einkum þó á suðaustanverðu landinu. Þar sem snjór og klaki þekja víða jörð er búist við talsverðri leysingu og auknu afrennsli í ám og lækjum.
Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Veðurviðvaranir vegna hvassviðris og hláku eru í gildi um land allt, mislengi þó. Þá er vakin athygli á því að hálkublettir leynist víða.
Þá má gera ráð fyrir vægu frosti í nótt. „Lægir smám saman og rofar til í kvöld og kólnar um tíma í veðri, sums staðar vægt frost í nótt. Síðan koma lægðirnar hver af annarri með tilheyrandi vætu og hlýindum, en snýst líklega í norðanátt er líður á vikuna og kólnar talsvert með éljum eða snjókomu, einkum nyrðra,“ segir í hugleiðingunum.