Lögreglumenn munu fá 3,25% - 3,5% launahækkanir næstu ár ásamt því að aldurstengdar launahækkanir verða teknar upp aftur. Hækkunin er afturvirk frá apríl í fyrra. Einnig munu lögreglumenn fá aukið vopnaálag.
Þetta segir Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, í samtali við mbl.is.
Landssambandið samþykkti fyrir skömmu nýjan kjarasamning við íslenska ríkið.
„Það er mikill léttir fyrir mig að ná samningum af því að við vorum með annan samning sem var felldur í sumar. Þannig það er mikill léttir og ég held að hann sé til mikilla hagsbóta fyrir félagsmenn. Ég er nokkuð ánægður með þennan kjarasamning,“ segir Fjölnir.
Hann segir að lögreglumenn muni fá 3,25% launahækkun afturvirkt frá apríl 2024 og síðan verður 3,5% launahækkun á hverju ári til ársins 2028.
Svokallað vopnaálag lögreglumanna hækkar einnig. Vopnaþjálfun lögreglunnar skiptist í fjögur stig og það er mismunandi hversu mikið lögreglumenn þurfa að æfa sig á hverju stigi.
Álagið tekur hækkunum í samræmi við launahækkanir kjarasamningsins.
„Þú færð auka álag eftir því sem þú þarft að mæta oftar að þjálfa þig og taka fleiri próf,“ segir Fjölnir.
Aukið fé er sett í stofnanasamninginn frá 2021 og aftur er tekið upp aldurstengdar launahækkanir sem voru teknar í burtu árið 2021.
„Það olli mikilli óánægju hjá lögreglumönnum að aldursflokkahækkanirnar skyldu teknar í burtu. Þannig við vorum í raun að semja þær aftur inn,“ segir Fjölnir.
Lögreglumenn felldu kjarasamning síðasta sumar en í þeim samningi voru ekki þessar aldurstengdu launahækkanir. Fjölnir segir að helsti munurinn á samningnum í sumar og samningnum sem nú var samþykktur hafi verið sá á ekki voru aldurshækkanir í samningnum síðasta sumar.
Nú verða sjálfvirkar launahækkanir eftir þrjú, sex, tíu og fimmtán ár í starfi.