Yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar segir mál þar sem brotið er gegn fólki með fötlun, reglulega koma á borð deildarinnar.
Hann segir einstaklinga með fötlun síður tilkynna brotin sjálfir og upplifa þeir heldur ekki alltaf að verið sé að brjóta á þeim. Þess í stað sé það oft einhver nákominn eða stuðningsaðili sem tilkynni brotin.
Hann segir lögreglu þurfa að nálgast þessi mál með öðrum hætti en þegar fólk með enga fötlun á í hlut, og fylgja leiðbeiningum ríkissaksóknara.
„Það geta verið misjafnar ástæður og misjöfn fötlun og við þurfum að taka sérstakt tillit til aðstæðna, tryggja aðgengi og að einstaklingarnir geti tekið fullan þátt í málinu. Það þarf að passa upp á samskiptin og huga að tjáningarforminu. Réttindagæslumaður fatlaðra kemur þar sterkur inn og getur mögulega veitt ráðgjöf,“ segir Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglu, í samtali við mbl.is.
„Ef viðkomandi á ekki heimangengt þá förum við heim til hans og tökum skýrsluna þar í aðstæðum sem hentar honum betur. Svo þarf að hafa í huga að þetta er einstaklingur.“
Ævar Pálmi segir enga tölfræði til um fjölda mála á borði lögreglu, þar sem brotið er gegn einstaklingi með fötlun, þar sem þau séu ekki sérstaklega skráð í kerfi lögreglunnar.
En fara þau sjaldnar til ákærusviðs?
„Hér innanhúss fara öll mál til ákærusviðs. Ef það er kynferðisbrot þá fer það til ákærusviðs. Svo er það ákæruvaldsins að taka ákvörðun um hvað verður gert.“
Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær kom fram í máli Jennýjar Kristínar Valberg, teymisstýru hjá Bjarkarhlíð, að um helmingur þeirra sem leiti til miðstöðvarinnar telji sig hafa einhvers konar skerðingu.
Þá hafi áþekk mál og þau sem Sigurjón Ólafsson var dæmdur í átta ára fangelsi fyrir, þ.e. látið aðra menn hafa samræði við konu með andlega fötlun, komið á borð Bjarkarhlíðar.
Sagði Jenný einnig að þekkt væri að gerendur notfærðu sér slæma fjárhagslega stöðu kvenna með andlega fötlun. Sumir kæmu með matarpoka og fengju í staðinn kynlíf.
Hafa sambærileg mál verið að rata á ykkar borð?
„Það koma alltaf reglulega mál inn á borð hjá okkur þar sem er verið að misnota fatlaðan einstakling kynferðislega. Hver aðferðin er, það er bara allur gangur á því,“ segir Ævar Pálmi.
„Þetta er hópur í viðkvæmri stöðu og fatlaðir tilkynna síður um brot sjálfir. Það eru skýrslur og rannsóknir sem hafa sýnt fram á það,“ segir Ævar Pálmi.
Oft sé það aðstandandi eða annar stuðningsaðili sem tilkynni brotin.
„En sá einstaklingur [brotaþoli] upplifir ekki alltaf að það sé verið að brjóta á sér.“
Getið þið tekið slík mál áfram ef brotaþoli upplifir ekki sjálfur að brot sé að eiga sér stað?
„Já, við getum það og gerum það. Þá þurfum við að beita aðeins öðruvísi nálgun þegar það er alveg ljóst að þarna sé rökstuddur grunur um að það sé verið að brjóta á einhverjum, þó að einstaklingur með fötlun trúi því ekki eða sjái það ekki – við förum alveg áfram með þannig mál.“
Er erfiðara að rannsaka mál af slíkum toga þannig að þau leiði til sakfellingar?
„Það getur verið það. Eitt af grundvallarsönnunargögnum í kynferðisbrotamálum er framburður brotaþola og gerenda, og eftir atvikum vitna. Ef þú færð ekki framburð, eða sterkan framburð, frá þeim sem verið er að brjóta á, þá byggir það ekki undir málið heldur frekar dregur úr. En við gefum ekkert eftir í rannsóknum á svona málum.“
Framangreindur dómur sem féll fyrir helgi yfir Sigurjóni Ólafssyni verslunarstjóra hefur vakið mikinn óhug. Fimm voru með réttarstöðu sakbornings, þar af þrír sem játuðu að hafa haft kynmök við konuna sem er með andlega fötlun, fyrir tilstuðlan Sigurjóns.
Enginn þeirra var þó ákærður fyrir verknaðinn.
Ævar Pálmi kveðst ekki vilja tjá sig um ákvörðun ákæruvaldsins að ákæra aðeins Sigurjón, þrátt fyrir að fleiri hafi haft kynmök við konuna.
Almennt séð segir hann það misjafnt eftir hverju máli fyrir sig hvers vegna ákæra sé gefin út eða þá ekki.
Hann vísar í 145. grein laga um meðferð sakamála sem kveður á um að ákæruvald skuli ekki gefa út ákæru á hendur sakborningi telji það ekki líklegt að málið leiði til sakfellis.
„Sums staðar í bandarísku réttarfari þá dugar það að einhver komi og játi á sig brot en það eitt og sér er bara ekki nóg á Íslandi. Það verða að vera gögn sem byggja undir játninguna eða hreinlega hrekja hana,“ segir Ævar Pálmi.
„Þannig er bara réttarfarið hjá okkur. Lögreglan aflar allra tiltækra og mögulegra gagna, það er partur af lögreglurannsókninni, að afla gagna með ýmsum hætti.“
Málin flækjast því oft þegar brotin gerðust fyrir nokkrum árum.
Þá ertu oft með fyrst og fremst kannski eingöngu framburði og frásagnir.
Hann bætir þó við að í kynferðisbrotamálum nú til dags geti samskipti á net- og samfélagsmiðlum skipt miklu máli.