Landsréttur hefur staðfest áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manni sem grunaður er um hnífstunguárás á Kjalarnesi á nýársnótt. Tveir hlutu stungusár í árásinni og hlaut annar þeirra lífshættulega áverka. Verjandi mannsins segir að um neyðarvörn hafi verið að ræða og stundarbrjálæði.
Þann 8. janúar úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur manninn í áframhaldandi gæsluvarðhald til 4. febrúar. Landsréttur staðfesti úrskurðinn 10. janúar eftir að maðurinn hafði reynt að fá hann felldan úr gildi.
Landsréttur birti úrskurðinn í dag og er þar greint nánar frá atvikalýsingu málsins.
Kemur þar fram að árásin hafi átt sér stað á gistiheimili og þegar lögreglu bar að garði var einn brotaþoli í anddyri húsnæðisins með stungusár á brjóstkassa sínum.
Annar maður var inni í húsnæðinu og var hann með ákomu í andlitinu og skurð á bakinu sem virtist vera eftir hníf.
Þá tjáði íbúi á svæðinu lögreglu að annar karlmaður sem einnig hafði verið stunginn hefði hlaupið til sín og verið með stungusár á bakinu. Sá reyndist lífshættulega slasaður.
Segir í úrskurðinum að þegar lögregla kom á vettvang hafi blóðslettur verið á gangi húsnæðisins og á víð og dreif á gólfinu inni í herberginu. Hnífur var í eldhúsvaskinum sem virtist vera búið að þrífa en einhverjar blóðslettur voru í kringum vaskinn.
Meintur gerandi var handtekinn á vettvangi og kemur fram að hann hafi blásið 1,22 prómíl í áfengismæli.
Að sögn hins grunaða stakk hann tvo karlmenn sem höfðu ráðist að honum og hafi hann því gert það í sjálfsvörn.
Kvað hann að margt fólk hefði verið í teiti í húsnæðinu þegar tveir aðilar sem voru gestkomandi hefðu farið að vera ógnandi og ráðist að honum í eldhúsinu. Þegar einn aðilinn hafi stappað á brjóstkassa hins grunaða hefði hann reiðst og varið sig með hníf.
Kemur fram í dómnum að á meðan frásögn hans stóð hafi hann grátið og sagt líf sitt vera búið. Hann sjálfur var svo fluttur á slysadeild til skoðunar vegna verks í rifbeini og síðan á lögreglustöð.
Þegar skýrsla var svo tekin af manninum 1. janúar greindi hann frá að hann hefði verið að reyna að stöðva slagsmál þriggja manna, þar af eru tveir af erlendu bergi brotnir en þeir koma frá Póllandi og Slóveníu.
Kvað hann einn þeirra hafa ýtt honum með þeim hætti að hann féll til jarðar. Mennirnir hafi haldið áfram slagsmálum sínum og hlaut hinn grunaði spark í kviðinn. Sagðist maðurinn hafa óttast um líf sitt og gripið til hnífs sem hafi verið fyrir framan hann þegar hann reyndi að standa upp.
Hinn grunaði kvaðst ekki muna hvað hafi gerst eftir að hann tók hnífinn en mundi þó eftir sér með hnífinn í hendi og man eftir að hafa séð einn mannanna hlaupa út úr húsinu haldandi um bringuna sína eða kvið.
Þá kemur fram að hinn grunaði hafi sjálfur hringt í neyðarlínuna en þar heyrist hann greina frá því að hann hafi stungið mennina.
Frásögn þolanda málsins er nokkuð samstillt. Lýsa þeir allir að upp hafi komið rifrildi og brotist hafi út slagsmál.
Sá er lífshættulega slasaðist greindi frá því í skýrslutöku að hann hafi verið að rífast og slást við annan mann þegar hinn grunaði hafi komið þar að og stungið hann tvisvar eða þrisvar sinnum. Í kjölfarið sá hann svo hinn grunaða einnig stinga annan karlmann.
Annar þolandi sagðist hafa verið að slást við þann sem lífshættulega slasaðist þegar hann fékk högg í nefið og yfirgaf herbergið. Sagði hann að þá hefðu allir verið að öskra á hinn grunaða en vissi hann ekki hvers vegna.
Þriðji þolandinn, sem einnig var stunginn, sagðist lítið muna eftir atvikinu sökum áfengisneyslu. Hann mundi þó eftir að hafa verið að rífast við en sagðist einungis hafa notað orð, ekki ofbeldi. Hann hafi verið að reyna að róa sig niður þegar hann hafi svo verið stunginn og kvaðst hann vera stunginn tvisvar sinnum í maga og í brjóst.
Fleiri aðilar voru á vettvangi og lýsti eitt vitni því að hafa heyrt mikil læti koma úr stofunni og séð hinn grunaða með hníf í hendi. Kvaðst vitnið hafa séð þegar hinn grunaði stakk einn þolandann í bringuna.
Þá kemur fram í úrskurðinum að sá er lífshættulega særðist þarfnaðist aðgerðar vegna áverka sinna en hann hlaut bæði loftbrjóst og blóðbrjóst og var lagður inn á gjörgæsludeild. Hinn maðurinn sem var stunginn hlaut tvær stungur í kviðinn og eina í brjóstið og fékk hann læknisþjónustu vegna áverkanna á bráðamóttöku.
Einnig kemur fram að hinn grunaði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald og einangrun þann 1. janúar en var einangrun aflétt 7. janúar.
Lögregla rannsakar málið sem ætlaða tilraun til manndráps gagnvart tveimur mönnum.
Hinn grunaði mótmælti kröfunni um að hann skyldi sæta gæsluvarðhaldi og krafðist þess að henni yrði hafnað. Til vara krafðist hann að honum yrði gert að sæta vægari úrræðum, svo sem tilkynningaskyldu, að bera þar til gert ökklaband frá lögreglu eða að halda sig innan ákveðins svæðis.
Til þrautvara krafðist hann þess að gæsluvarðhaldinu yrði markaður skemmri tími.
Vísar verjandi mannsins til þess að um neyðarvörn hafi verið að ræða og stundarbrjálæði en enginn einbeittur brotavilji. Þá vísar verjandi mannsins til þess að hann hafi unnið á Íslandi frá árinu 2017 og sé með hreint sakarvottorð. Engin ógn stafi af honum og því standi almannahagsmunir ekki til þess að úrskurða hann í gæsluvarðhald.
Eins og fyrr segir var það hins vegar mat Héraðsdóms Reykjavíkur að vegna alvarleika brotsins, sem maðurinn er sterklega grunaður um, var fallist á að áframhaldandi gæsluvarðhald væri nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.