Óskað var aðstoðar lögreglu vegna hótana og eineltis þar sem málsaðilar eru báðir á unglingsaldri. Málið til rannsóknar í samvinnu við barnavernd.
Þetta er meðal annars þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun. Alls eru 38 mál skráð í kerfinu á umræddu tímabili.
Tilkynnt um óvelkomna konu á veitingastað, sem var búin að koma sér fyrir inni í geymslurými, sem reyndist vera heimilislaus. Hún gekk leiðar sinnar er lögregla kom á vettvang.
Þá var tilkynnt um par í annarlegu ástandi sem búin voru að koma sér fyrir í anddyri í fjölbýlishúsi. Þau voru farin er lögregla kom á vettvang.
Óskað eftir aðstoð lögreglu vegna umferðaróhapps þar sem bifreið var ekið utan í aðra. Tjónvaldur var sagður ógnandi í hegðun og lét sig svo hverfa af vettvangi. Málið til rannsóknar.
Óskað var aðstoðar lögreglu vegna öskurs úr íbúð í heimahúsi. Er lögregla kom á vettvang og ræddi við húsráðanda reyndist sá hafa verið að horfa á fótbolta og verið að hvetja lið sitt af mikilli innlifun svo að hrópin heyrðust í næstu íbúðir.
Ökumaður stöðvaður eftir að hafa verið mældur á 66 km/klst. þar sem leyfilegur hámarkshraði er 30 km/klst. Var hann bráðabirgðasviptur ökuréttindum vegna hraðakstursins til þriggja mánaða. Einnig var ökumaður grunaður um akstur undir áhrifum ávana og fíkniefna. Hann var látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.