Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greinir frá því að henni hafi borist margar tilkynningar vegna bifreiða sem hafa orðið fyrir skemmdum við að aka ofan í holur.
Lögreglan vill vekja athygli á því að nú þegar fer að þíða í kjölfar frostakafla aukist hætta á því að holur myndist í vegum, meðal annars á malbikuðum götum borgarinnar.
Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna tjóns á minnst 3 bifreiðum eftir að þeim hafði verið ekið í holu á vegi í íbúðarhverfi í austurborginni.
Þá bárust ítrekaðar tilkynningar vegna tjóna á bifreiðum eftir að þeim hafði verið ekið í holur á stofnbraut í austurborginni. Um var að ræða nokkrar holur á kafla vegarins. Að minnsta kosti 9 bifreiðar urðu fyrir tjóni á hjólbörðum og þurftu ökumenn því að skipta um hjólbarða til að halda för sinni áfram.
Þá bárust lögreglunni tilkynningar vegna hættuástands sem var sagt hafa skapast þegar fjölda bifreiða var ekið í holu í hringtorgi á stofnbraut í austurborginni. Reyndust 9 bifreiðar vera með fjónaða hjólbarða og þurftu ökumenn að skipta um hjólbarða til að halda för sinni áfram.
Lögregla segir veghaldara hafa verið tilkynnt um málið og gert að lagfæra göturnar.