Strætó hefur ákveðið að taka skerðingar frá tímum samkomutakmarkana til baka. Ástæða þess að ekki var hægt að koma þjónustunni fyrr í sama horf og fyrir faraldur var fjárhagsstaða sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta segir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., í samtali við mbl.is.
Breytingarnar fela í sér að þjónustutími á kvöldin verður lengdur á mörgum leiðum. Leiðir 19 og 24 verða á 15 mínútna tíðni á annatíma í stað 30 mínútna tíðni og leið 6 verður á 10 mínútna tíðni á annatíma í stað 15 mínútna.
Af hverju var beðið svona lengi með að koma þjónustunni í sama horf og fyrir covid?
„Það er bara fjárhagsstaða sveitarfélaga, eigenda Strætó,“ segir Jóhannes en eigendur Strætó eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.
Hann segir að það hafi einfaldlega ekki verið fjármunir til staðar til að vera með sömu þjónustu og fyrir covid.
Ótengd skerðingum vegna covid þá er einhver þjónustuaukning á þessu ári sökum uppfærðs samgöngusáttmála.
Leiðir 3, 5 og 12 verða á 10 mínútna tíðni á annatíma í stað 15 mínútna og á 15 mínútna tíðni virka daga milli annatíma í stað 30 mínútna.
Leið 21 verður á 15 mínútna tíðni á annatíma í stað 30 mínútna.
Jóhannes segir að endanleg ákvörðun um hvenær þjónustuaukning komi til framkvæmda hafi ekki verið tekin.