Auknar líkur á grjóthruni og skriðum

Hér má sjá uppsafnaða úrkomu fram á miðnætti á föstudag.
Hér má sjá uppsafnaða úrkomu fram á miðnætti á föstudag. Veðurstofa Íslands

Auknar líkur er á grjóthruni og skriðum á sunnanverðum Vestfjörðum, Suður- og Vesturlandi og ekki er hægt að útiloka krapaflóðahættu. Þá má búast við vatnavöxtum og miklu afrennsli víða um land vegna hlýinda og leysinga. Þetta kemur fram á bloggsíðu Veðurstofu Íslands um ofanflóð.

Spáð er suðlægum áttum með hlýindum og rigningu í flestum landshlutum fram á fimmtudag, en mögulega snjókomu í allra hæstu fjöllum á jöklum landsins.

„Búast má við að úrkoman verði hvað mest á sunnan- og vestanverðu landinu. Þá fylgir úrkomunni hlýtt loft og er hiti yfir frostmarki í nær öllum landshlutum. Því má gera ráð fyrir að frost fari úr jörðu. Snjó hefur tekið upp víðast hvar á landinu en enn er snjór til fjalla og í giljum.“

Búist við enn frekari vatnavöxtum næstu daga

Þó ekki sé búist við óvenju ákafri rigningu eða miklum hlýindum geti langvarandi væg hláka aukið líkur á skriðuföllum. Jarðvegurinn þoli mikið vatnsmagn, en þegar rigni, frost fari úr jörðu og snjóa leysi safnist sífellt meira vatn fyrir sem geti valdið því að jarðvegurinn verði óstöðugur.

„Þá þarf úrkomumagn ekki að vera umtalsvert til að skriður geti fallið. Uppsöfnuð úrkoma á þó að ná heldur háum gildum á næstu þremur dögum. Því er rétt að vara við auknum líkum á grjóthruni og skriðum á þeim svæðum þar sem úrkoman er mest.“

Þessar veðuraðstæður geti valdið krapaflóðum þar sem snjór sé enn í giljum og farvegum. Því sé ekki hægt að útiloka krapaflóðahættu á slíkum svæðum.

Úrkoman og hlýindin valdi auknu afrennsli, sér í lagi á Suður- og Vesturlandi og Sunnanverðum Vestfjörðum. Þá séu margar ár háar eftir vatnavexti helgarinnar og búast megi við enn frekari vatnavöxtum í ám og lækjum næstu daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert