Fengu endanlega synjun: Fara úr landi á fimmtudag

Niðurstaða kærunefndar útlendingamála barst í dag.
Niðurstaða kærunefndar útlendingamála barst í dag. Ljósmynd/Aðsend

Endanleg synjun á að fresta sjálfviljugri brottför Emmu Alessöndru Reyes Portillo og foreldra hennar barst frá kærunefnd útlendingamála í dag. Fjölskyldunni er því gert að yfirgefa landið á fimmtudag. Emma átti að fara í nauðsynlega mjaðmaraðgerð á Landspítala eftir rúmar þrjár vikur.

Þetta segir Jón Sigurðsson lögmaður stúlkunnar í samtali við mbl.is. 

Hann segir að lítið annað sé hægt að gera í málinu og lítur allt út fyrir það að fjölskyldan fari úr landi á fimmtudag. 

Emma er hælisleitandi frá Venesúela. Hún er á fjórða ári og hefur verið búsett hér á landi frá árinu 2023. Í febrúar 2024 gekkst Emma undir skurðaðgerð vegna mjaðmaloss og þarf nú, samkvæmt læknisvottorði sem mbl.is hefur undir höndum að vera í stöðugu eftirliti sérfræðinga. 

Hætta á að stúlkan verði alvarlega fötluð

Emma átti að fara í aðra aðgerð 10. febrúar þar sem til stóð að fjarlægja plötu úr lærlegg hennar þar sem mjöðmin var opnuð en það er nær útilokað að það verði af aðgerðinni þar sem fjölskyldunni er gert að yfirgefa landið á fimmtudag.

Hin þriggja ára Emma Alessandra Reyes Portillo .
Hin þriggja ára Emma Alessandra Reyes Portillo . Ljósmynd/Aðsend

Blaðamaður mbl.is ræddi við foreldra stúlkunnar í gær sem óttast um að dóttir þeirra verði fötluð restina af ævi sinni fái hún ekki rétta læknisþjónustu. Þau segja að Emma fái ekki fullnægjandi læknisþjónustu í Venesúela. 

Öryrkjabandalag Íslands hefur lýst áhyggjum af aðstæðum fjölskyldunnar. Þau segja að heilbrigði Emmu stefnt í hættu verði henni gert að yfirgefa landið. Hætta sé á að hún verði alvarlega fötluð njóti hún ekki viðeigandi eftirfylgni eftir þá aðgerð sem hún gekkst undir í febrúar á síðasta ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert