Hlýnar í veðri og ástandið skárra í bili

Pétur G. Markan, bæjarstjóri Hveragerðis.
Pétur G. Markan, bæjarstjóri Hveragerðis.

Pétur G. Markan, bæj­ar­stjóri í Hvera­gerði, segir vonir standa um að skammtímadæla geti séð bænum fyrir heitu vatni á meðan beðið er eftir varahlutum í þá gömlu. Hlýrra veður hafi gert íbúum lífið léttara en í síðustu viku. 

„Það hefur hlýnað og þannig skánar ástandið,“ segir Pétur.

Dæla í bor­holu hita­veitu í Hvera­gerði hef­ur verið biluð frá 1. des­em­ber með skertri af­hend­ing­ar­getu sem veld­ur því að mörg heim­ili fá ekki jafn heitt vatn og venju­lega.

Sundlaugin hefur verið opin

Tilkynning frá Veitum vegna bilunarinnar gaf í skyn að viðgerð tæki ekki jafnlangan tíma og raunin hefur orðið, en Pétur hefur boðað Veitur á fund sinn á föstudaginn til að ræða stöðuna.

„Veitan afkastar betur núna. Þannig að sundlaugin hefur verið opin.“

Hann segir nú unnið að því að setja niður skammtímadælu á meðan verið sé að bíða eftir varahlutum í dæluna. Vonir standi um að hún sjái íbúum fyrir nægu heitu vatni þegar annar kuldakafli skelli á.

„Við bara gerum ráð fyrir því að Veitur geri allt sitt til þess að tryggja það að við lendum ekki í sams konar ástandi þegar kuldakaflinn kemur upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert