Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur áhyggjur af því hökti sem á rafbílavæðingunni sem hann segir hafa orðið þegar fyrri ríkisstjórn dró úr ívilnunum til rafbílakaupa.
Jafnframt telur hann að stærsta skrefið til þess að hraða væðingunni væri að fá bílaleigur meira með í orkuskiptin.
mbl.is náði tali af Jóhanni að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun og ræddi við hann um málið.
Jóhann segir að nú sé til greiningar í ráðuneyti hans hvernig stuðningur við rafbílakaup hafi dreifst eftir búsetu og tekjum og nefnir hann að sú greining muni mynda umræðugrundvöll fyrir breytingar á styrkjafyrirkomulaginu.
„Vegna þess að það er okkur mikið kappsmál að orkuskiptin og útfösun jarðefnaeldsneytis sé með þeim hætti að það leggi ekki ójafnar byrðar á fólk eftir því hvar það býr eða hver fjárhagsstaða þess er.“
Hann segir að höktið sem hafi orðið á rafbílavæðingunni sé áhyggjuefni en að eitt stærsta og mikilvægasta skrefið sem hægt væri að taka til þess að hraða henni væri að fá bílaleigur meira með.
„Vegna þess að mjög hátt hlutfall allra innkaupa á bílum fer þar í gegnum. Og það hvernig bílaleigurnar hátta sínum innkaupum, það hvernig þau innkaup dreifast niður á hreinorkuökutæki og svo bensín og dísil, hefur mjög mikil áhrif á hvernig samsetningu bílaflotans á Íslandi er háttað til 10-20 ára,“ segir Jóhann og heldur áfram:
„Þannig að þarna er til mikils að vinna og það hefur verið góður gangur í uppbyggingu hleðsluinnviða, þannig að ég hef fulla trú á því að það sé að verða æ raunhæfara fyrir ferðamenn að ferðast um landið á rafbíl.“
Að sögn ráðherrans eigi að horfa á það sem ákveðið tækifæri til að geta markaðssett Ísland sem sjálfbært ferðamannaland þar sem þætti sjálfsagt að ferðamenn, ef þeir gætu og væru að ferðast með þeim hætti og á þannig stöðum, væru á rafbíl.
„Þetta er eitt af því sem við erum að horfa til við uppfærslu á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og þetta er samtal sem við munum þurfa að taka við bílaleigurnar sjálfar, af því að orkuskiptin eru alltaf samvinnuverkefni.“