Alma Möller heilbrigðisráðherra segir Matvælastofnun og sóttvarnalækni fylgjast vel með fuglaflensunni sem herjar nú á fugla, einkum gæsir, en hefur einnig greinst í tveimur köttum. Hún segir að það væri ástæða til að hafa áhyggjur ef fuglaflensan myndi breiðast út á meðal manna en þá væri um annað afbrigði að ræða.
mbl.is ræddi við Ölmu að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
Hefur þú einhverjar áhyggjur af því að þessi flensa fari að dreifast á milli manna?
„Ég verð að fá að svara því já og nei. Af því að þetta er afbrigðið H5N5 sem hefur ekki greinst í fólki. Síðan hefur verið afbrigði vestanhafs sem er H5N1 og það hefur greinst í fólki,“ segir heilbrigðisráðherrann og heldur áfram:
„En auðvitað er alltaf ástæða til þess að fylgjast vel með og það gerir Matvælastofnun og auðvitað sóttvarnarlæknir líka.“
Þá undirstrikar hún þau ráð sem hafa komið frá stofnununum um að fólk eigi að nálgast sjúk dýr af mikilli varúð og gæta sóttvarna.
Ef svo til kæmi að fuglaflensan myndi fara að dreifast á milli manna, værum við viðbúin því?
„Þú ert að tala um ef að það kæmi upp nýr faraldur?“
Í rauninni, já.
„Það eru auðvitað til viðbragðsáætlanir sem að reyndu rækilega á í heimsfaraldri kórónuveiru. Við drógum margvíslegan lærdóm af þeim faraldri þannig við værum vel, eða jafnvel betur undirbúin en við vorum þá. En ég endurtek að þetta afbrigði sem að geisar núna í fuglum – það hefur ekki borist í fólk.“
Hún segir þó að ef afbrigðið H5N1 færi að dreifast á milli manna væri ástæða til þess að hafa áhyggjur en tekur hún fram að hún sé ekki að hafa áhyggjur af því fyrir fram.
„Maður tekur bara þessu eins og það kemur og það er auðvitað „mjög vel fylgst með, bæði hérlendis og erlendis.“