Móðir Kolfinnu: „Við syrgjum bæði dóttur okkar“

Útför Kolfinnu Eldeyjar fór fram í gær.
Útför Kolfinnu Eldeyjar fór fram í gær.

Sigurður Fannar Þórsson, sem ákærður er fyrir að hafa banað dóttur sinni, Kolfinnu Eldeyju, í september síðastliðnum, fékk höfnun frá áfallateymi Landspítalans síðasta vor eftir að hafa leitað þangað með aðstoð barnsmóður sinnar vegna andlegra veikinda.

Hann hafði skömmu áður horfið sporlaust heiman frá sér og fundist á göngu hátt í þremur sólarhringum síðar.

Þetta kemur fram í færslu sem Ingibjörg Dagný Ingadóttir, móðir Kolfinnu, birti á Facebook í gær og gaf mbl.is leyfi til að skrifa upp úr. Hún lýsir því hvernig kerfið brást Sigurði þegar hann þurfti á hjálp að halda.

„Hann var orðinn uppþornaður og með sár á fótum eftir að hafa labbað stanslaust síðan á aðfararnótt mánudags. Hann hafði bara gengið um allan þann tíma í einhverju geðrofi, maníu eða einhverju sem ég kann ekki betur að nefna. En það var ljóst að það var eitthvað að. Hann fékk aðhlynningu í einhverjar klukkustundir á bráðamóttökunni áður en hann var útskrifaður.“

Drekkti sér í vinnu

Hún segist fljótlega eftir þetta hafa aðstoðað barnsföður sinn að sækja sér hjálp á geðdeild. Hann hafi fengið uppáskrifuð lyf hjá læknum en eftir nokkurra daga bið hafi áfallteymið hafnað honum. Hann hafi ekki fengið viðtal.

Sumarið hafi liðið áfallalaust, Sigurður hafi náð að drekkja sér í vinnu, eins og fólk með áföll á bakinu geri gjarnan. Það hafi þó augljóslega eitthvað verið að plaga hann.

„Sunnudaginn örlagaríka fer hann inn í Hafnarfjörð til að dytta að bílnum sínum og erindast og hefur hana með því þau ætla að finna sér stað til að leika með dót sem við keyptum nokkrum dögum áður - bolta til að kasta á milli tveggja festispjalda með frönskum rennilás. En þau skila sér ekki úr þeirri ferð. Ég var búin að hringja margsinnis og það var mjög óvenjulegt að hann skyldi ekki svara mér í síma. Upp úr níu um kvöldið fæ ég löggu og prest heim til mín og veröldin hrynur. Restin er sögð saga.“

Hún segist ekki vita hvað gerðist, enginn viti það í rauninni.

„Ég vissi strax í hjarta mínu að hann hefði ekki tekið meðvitaða ákvörðun um að gera svona lagað. Hann man ekki sjálfur hvað gerðist. Hann var kominn langleiðina með að taka eigið líf og er alveg eyðilagður. Við syrgjum bæði dóttur okkar.“

„Elskaði dóttur sína og gerði allt fyrir hana“

Allir hafi verið slegnir, ekki nokkur maður hafi átt von á að þetta gæti gerst.

„Enginn sem þekkti Sigga ætlaði að trúa þessu. Því hann hefur ætíð verið kurteis, hjálpsamur, samviskusamur, örlátur og duglegur. Hann hefur alltaf verið mín stoð og stytta og minn besti vinur. Hann elskaði dóttur sína og gerði allt fyrir hana. Hún elskaði hann og þau áttu ætíð gott samband. Upplifun mín hefur því verið að ég missti meira en dóttur mína þann 15. september.“

Ingibjörg vill segja sína sögu því henni finnst samfélagið þurfa að vakna. Fólk þurfi að gera sér grein fyrir því hvernig kerfið hafi brugðist.

„Við þurfum að gera okkur grein fyrir því hvernig kerfunum hefur verið leyft að koma fram við okkur. Hvernig orðræðunni hefur lengi verið stýrt í þá áttina að láta okkur berjast innbyrðis og valda sundrungu milli okkar. Hvernig fólk hefur verið stimplað klikkað, geðveikt og ruglað. Þannig var réttlætt að afskrifa það, loka inni og hlusta ekki á það. Á meðan þetta er ekkert annað en fólk sem hefur þurft að þola mismikið af misstórum áföllum. Og þau fá takmarkaða hjálp, ef einhverja. Það er eins og stefnan sé að hjálpin eigi að vera einhver lúxusvara sem bara ríka fólkið á að eiga kost á. Af hverju ætli það sé?“

Hún segir pillur ekki vera lausn frekar en hækjur. Það þurfi að finna rót vandans og eiga við hana. Oftar en ekki liggi hún í áföllum sem aldrei hafi verið unnið úr.

Beið eftir að vakna af martröðinni

Það sé undarlegt að hægt sé að neita fólki sem leitar sér hjálpar.

„Eins og einhver annar hafi umboð til að segja manni hvernig manni líður. Ég veit ekki betur en að ég sé eina manneskjan sem hef aðgang að mínu eigin sálarlífi. Hver gefur öðrum rétt til að ákveða hvort ég þurfi hjálp eða ekki? Eina hlutverk stofnana á að vera að finna út úr því hvernig hjálp hentar í samráði við sjúklinginn, því hann er jú sérfræðingur í sinni eigin líðan. Annað er bara ofbeldi.“

Ingibjörg segir síðustu mánuði hafa verið þá lengstu og erfiðustu sem hún hafi upplifað á ævinni. Það sé engin leið fyrir hana til að reyna að lýsa því orðum.

„Ég átti frekar von á að fá loftstein í höfuðið en því sem gerðist í september. Í langan tíma beið ég bara eftir að vakna því þetta hlyti að vera martröð. En í stað þess hvern dag sem ég vaknaði þá beið mín martröð. Einhver allt önnur veröld sem ég þekkti ekki en var fleygt harkalega inn í. Aldrei á ævinni hef ég verið jafn mikið til í að vakna ekki á morgnana.“

Hún hafi hins vegar neyðst til að vakna, líka upp af þeim svefni sem hún segir að við sem samfélagið höfum verið látin sofa.

„Hún lýsti upp herbergið“

Ingibjörg segir dóttur sína hafa verið betri manneskju en hún sjálf hafi nokkurn tíma verið. Hún hafi ekki átt þetta skilið. Hún hafi kennt bæði henni og mörgum öðrum margt og hafi gefið frá sér mikla ást.

„Dóttir mín var góð, fyndin, vitur, skemmtileg, full af orku og hugmyndum, skapandi og frjáls. Hún var kærleiksrík, elskuleg, sjálfstæð, umhyggju- og hjálpsöm. Hún lýsti upp herbergið bara með því að vera til. Allir sem hana þekktu elskuðu hana.“

Hún spyr hvort við viljum ekki samfélag þar sem fólk fái hjálp, eða í samfélagi þar sem sjálfsvíg, morð og ofbeldisglæpir séu algengir.

„Hvernig væri að við færum að skapa samfélag sem setur fólk í forgang? Við erum ekki vélmenni. Við erum ekki byggð fyrir stanslausan þrældóm. Við erum manneskjur. Manneskjan er tilfinningavera. Hugur, sál og líkami er samtvinnaður í eitt. Við þurfum að fara að hugsa um þetta sem heild. Það þarf að umbylta kerfunum. Þau eru gömul og úrelt, byggð á gömlum hugmyndum um fólk af stjórnvöldum sem notuðu óttastjórnun til að halda fólki í skefjum. Hugsunin ber enn leyfar af þessum ótta. Við erum öll að sækjast eftir því sama - að líða vel.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert