Mikið gjóskufall gæti orðið innan þrjátíu kílómetra frá Bárðarbungu, verði þar sprengigos sem brýtur sér leið í gegnum jökulinn. Þykkt gjóskufallsins gæti þá numið allt frá 20 sentimetrum og yfir 10 metra.
Þetta kemur fram í eldfjallavefsjánni, sem Veðurstofan, Háskóli Íslands og almannavarnir halda úti.
Engin byggð er þar innan færis, en þó segir að samgöngur á landi gætu stöðvast í stóru gosi.
Í miklu gjóskufalli gætu fjarskipti truflast eða stöðvast, rafmagnslínur skemmst og truflun orðið á rafmagnsframleiðslu. Algjört myrkur gæti varað klukkustundum saman undir gosmekki.
Öflug skjálftahrina hófst í Bárðarbungu í morgun og hefur viðlíka ekki sést frá því í aðdraganda goss í eldstöðinni, í Holuhrauni nánar tiltekið, í ágúst árið 2014.
Bent er á að jökulhlaup hafi orðið á síðustu þúsund árum, þar sem rennsli hafi náð 3.000 til 30.000 rúmmetrum á sekúndu.
Til samanburðar má nefna að meðalrennsli Ölfusár við Selfoss er um 400 rúmmetrar á sekúndu.
Mun stærri jökulhlaup, þar sem mesta rennslið fór umfram 100.000 rúmmetra á sekúndu, urðu á forsögulegum tíma.
Þegar litið er fjær upptökunum, eða í 30 til 150 kílómetra fjarlægð frá hugsanlegu gosi undir jöklinum, er aftur tekið fram að algjört myrkur gæti varað klukkustundum saman.
Samgöngur og fjarskipti yrðu þar fyrir truflunum og skemmdir yrðu á landi og gróðri í jökulhlaupum.
Enn fjær, eða í yfir 150 kílómetra fjarlægð frá mögulegum upptökum, gæti gosmökkurinn haft áhrif á flugleiðir yfir Íslandi og víðar.
Gasútstreymi og gosmóða í stórum gosum gætu þá valdið loftmengun.