„Staðan er þannig að frá því að þetta hlé var gert á föstudaginn þá höfum við verið í samskiptum við alla deiluaðila og þeir hafa verið í samskiptum sín á milli, en það er ekki enn þá ástæða til þess að mínu mati að boða til formlegs samningafundar.“
Þetta segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is um stöðuna í kjaradeilu kennara, ríkis og sveitarfélaga, en ótímabundið hlé var gert á viðræðunum fyrir helgi.
Í lok nóvember ákvað ríkissáttasemjari að prófa nýja leið í viðræðunum eftir að lítið hafði þokast í nokkrar vikur. Deiluaðilar skrifuðu undir rammasamkomulag um hvernig standa ætti að frágangi kjarasamnings við Kennarasamband Íslands, vegferðina þangað og tryggt var að tekið yrði skref í átt að jöfnun launa á milli markaða á þessu ári. Þá var verkföllum frestað út janúar.
Eftir áramót hefur hins vegar komið í ljós að enn er ágreiningur um kröfu kennara um jöfnun launa á milli markaða og hvað skuli miða við í þeim efnum.
Aðspurður hvort staðan sé í raun sú sama og hún var áður en samkomulagið var gert í lok nóvember segir Ástráður það ekki alveg svo, þó að vissulega sé enn deilt um sömu atriðin.
„Ég held að staðan sé ekki alveg nákvæmlega eins. Ég held að þrátt fyrir allt þá hafi orðið nokkur þroski, bæði á eiginlegum kjaraviðræðum og líka á þessum pælingum um þessar hugmyndir um jöfnun launa á milli markaða. En þær bara ekki komist nógu langt til að hægt sé að boða til formlegs samningafundar með afmörkuðu efni. Við erum að reyna að móta það.“
Hvað þarf þá að gerast til að hægt sé að boða til samningafundar?
„Það þarf að verða til einhver grundvöllur sem hægt er að segja að sé skynsamlegt að að taka til formlegrar umræðu á fundi.“
Ástráður segir erfitt að segja til um hvort það sé að fara að gerast á næstunni. Hann segist þó alltaf vera bjartsýnn. Báðir aðilar þurfi þó væntanlega að gefa eitthvað eftir.
Hann verður áfram í góðu sambandi við deiluaðila sem munu halda áfram að funda hver í sínu lagi og einnig vera í samskiptum sín á milli, þangað til grundvöllur fyrir formlegar samningaviðræður næst.
„Nú gilda reykfylltu bakherbergin,“segir Ástráður að lokum.