Óvenjuleg og hröð atburðarás sem kemur á óvart

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur ræddi við mbl.is um Bárðarbungu.
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur ræddi við mbl.is um Bárðarbungu. Samsett mynd

„Við eigum ekki að túlka það þannig að það sé að fara að gjósa þarna núna. Þetta sýnir eigi að síður að Bárðarbunga er virk.“

Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is um kröftuga jarðskjálftahrinu sem hófst í Bárðarbungu í morgun.

Jarðskjálftahrinan hófst klukkan 6 í morgun og mældist stærsti skjálftinn klukkan 8.05, 5,1 að stærð. Eftir það hafa tugir minni skjálfta mælst á svæðinu.

Skjálftahrinan er sú öflugasta sem orðið hefur í eldstöðinni frá því að eldgos kom upp í Holuhrauni árið 2014. 

Magnús segir að skjálftahrinan sé að mörgu leyti óvenjuleg en þó eigi hún sér hliðstæður.

Nefnir hann Gjálpargosið sem var á milli Bárðarbungu og Grímsvatna í október árið 1996 og undanfara gossins í Holuhrauni í lok ágúst árið 2014.

Langt frá því að ná magninu fyrir gosið 2014

„Það sem við höfum verið að sjá eftir að öskjusigið varð, eftir stóra gosið í Holuhrauni, er að það hefur verið virkni í Bárðarbungu. Mælingar sem við höfum gert þarna sýna að botninn hefur verið að rísa frá árinu 2015 og hann er búinn að rísa um þriðjung af þeim 65 metrum sem hann seig í gosinu í Holuhrauni,“ segir Magnús.

Nefnir hann að eldstöðin í Bárðarbungu sé mjög öflug og að erfitt sé að spá til um framhaldið. Ef eldgos brjótist út undir jökli geti það framkallað stór jökulhlaup. 

Mikið magn kviku hafi safnast saman á síðustu 10 árum en að hún sé langt frá því að ná því magni sem var fyrir eldgosið í Holuhrauni árið 2014.

Magnús segir atburðarásina hafa verið hraða og komið vísindamönnum nokkuð á óvart.

„Við vitum ekkert hvað er að fara að gerast, það getur vel verið að það gerist ekkert meira, en það lítur óneitanlega út fyrir að kvika hafi verið á einhverri hreyfingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert